146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel það mikilvægt og geri alls ekki athugasemdir við að frumvarpið fari m.a. til umsagnar til umhverfisnefndar þingsins. Það er hv. atvinnuveganefnd sem ákveður það og leitar eflaust til hennar. Það skiptir máli að við vöndum til verka. Við þurfum að vanda okkur í málsmeðferðinni hér, kalla til hagsmunaaðilana, en við þurfum líka að vanda okkur þegar kemur að rannsóknum til þess að halda áfram að byggja m.a. upp þá starfsemi sem hefur byggst upp við Breiðafjörðinn, sérstaklega í Reykhólasveitinni, í tengslum við þang- og þaranýtingu.

Ég tel mikilvægt að málið verði afgreitt núna í vor því þetta eru hagsmunir fyrir byggðina við Breiðafjörðinn. Ég tel mikilvægt að við sem hér erum inni gerum allt til þess að styrkja byggðir landsins. Sumar eru brothættari en aðrar og við eigum að gera allt til þess að veita þeim bæði meiri fyrirsjáanleika, meiri stöðugleika og meiri byggðafestu. Ég tel að þegar leikreglur eru skýrar þá hjálpar það allri atvinnustarfsemi, hvort sem hún er í Reykhólasveitinni eða annars staðar á landinu, þannig að það sé líka dregið fram.

Síðan getum við náttúrlega rætt um starfsemi ríkisstofnana, rannsóknastofnana á landsbyggðinni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að besta byggðastefnan sé einmitt að byggja upp tækifæri fyrir fólk alls staðar á landinu til þess að hafa aðgang að menntun, til þess að byggja upp rannsóknir á tilteknum svæðum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við sjáum ákveðinn vísi að kjörnum myndast á sviði mennta og rannsókna, hvort sem við erum að tala um á Ísafirði eða öðrum svæðum. Svo er það dreifnámið, ég nefni t.d. suðurhluta Vestfjarða, Vesturbyggð og Patró, þar sjáum við að nám (Forseti hringir.) á fyrri parti framhaldsskóla hefur skilað mjög miklu fyrir samfélagið. Þannig getum við haldið áfram (Forseti hringir.) að byggja upp innviði í þessum samfélögum til þess að þau geti verið enn betur í stakk búin til þess að takast á við fjölbreytt atvinnutækifæri sem eru víða um land.