146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:48]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í orð Bjarna Kristjánssonar, sem er einn þeirra hagsmunaaðila sem sendu atvinnuveganefnd umsögn um vinnslu þangs og þara við fyrstu tilraun til þess að fella vinnsluna undir stjórn fiskveiða. Með leyfi forseta:

„Það að færa sjávargróður sem er í einkaeign undir lög um stjórn fiskveiða þar sem segir í fyrstu grein að nytjastofnar séu í sameign íslensku þjóðarinnar, er í raun dulin þjóðnýting og getur ekki samrýmst stjórnarskrá Íslands. Með þessu ákvæði yfirtaka stjórnvöld yfirráð og nýtingarstjórn á sjávargróðri innan netlaga sem eigendur sjávarjarða hafa haft fram til þessa. Þetta er gert þrátt fyrir að stjórnvöld viðurkenni eignarrétt sjávarjarða á sjávargróðri innan netlaga …“

Bæta má við að ekki er einvörðungu verið að fella málaflokkinn undir stjórn fiskveiða, heldur er líka verið að taka einn aðila út fyrir sviga og færa honum sérleyfi um 20 þúsund tonnum áður en kemur til álita að aðrir aðilar fái rétt til þess að afla þangs.

Heildarþangtaka í Breiðafirði fram undir 2013 er um 13–17 þúsund tonn. Mér finnst það mjög há tala.

Skýrsla um burðarþolsmat í þangtöku er væntanleg, en Hafrannsóknastofnun gerði slíka rannsókn síðasta sumar. Í þeirri rannsókn eru þörungarnir sjálfir rannsakaðir, en ekki eru skoðuð áhrif á lífríkið í heild sinni, áhrif á búsvæði grásleppu, við æðarvarp og ungviði þorsks og annarra fiskstofna. Það er þó fagnaðarefni að skýrsla stofnunarinnar er væntanleg. En því miður er umfang rannsóknarinnar svo takmarkað að ekki er hægt að taka upplýsta ákvörðun út frá umhverfissjónarmiðum, að sögn heimildarmanna sem þekkja til rannsóknarinnar. Getur verið að markmið löggjafans sé að veita einum aðila einkarétt til þaravinnslu undir yfirskyni umhverfissjónarmiða?

Þó svo að löggjafanum gangi hugsanlega gott eitt til þá eru orð Ragnars Aðalsteinssonar, hæstaréttarlögmanns, ágætisbotn í þessa umræðu, með leyfi forseta:

„Af framagreindu má Ijóst vera að hin fyrirhuguðu lagaákvæði, sem varða öflun sjávargróðurs, verða afar óskýr með þeirri aðferð, sem fyrirhugað er að beita við lagasetninguna. Ákvæðin eru dreifð innan um ákvæði þriggja lagabálka og skortir því þegar af þeirri ástæðu samfellu. Sú löggjöf sem ákvæðin um öflun sjávargróðurs eru felld inn í fjallar fyrst og fremst um fiskveiðar, en sú atvinna er gjörólík öflun sjávargróðurs. Þegar af þeirri ástæðu verður verulegum erfiðleikum bundið að túlka ákvæðin, þar sem allar reglur lagabálkanna fjalla um ólík álitaefni og því verður við túlkun lagaákvæðanna um sjávargróður ekki stuðst við innra samhengi löggjafarinnar sem ákvæðin standa í. Þá er þess að geta að þeir sem ætlað er sem stjórnvaldi að framkvæma kvæðin hafa fyrst og fremst sérþekkingu á fiskveiðum og skyldum efnum en ekki öflun sjávargróðurs. Af framangreindu leiðir að óhjákvæmilegt er að hafna þeirri löggjafarleið sem lagt er til að farin verði og semja þess í stað sérstakt frumvarp um viðfangsefnið.“