146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[13:51]
Horfa

Flm. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var akkúrat það sem ég var að fiska eftir, hvort það væri ekki ástæða til að halda á lofti náttúrufræðingnum líka. Sem betur fer var Jónas svo fjölhæfur. Hann er mjög kunnur fyrir sínar náttúrurannsóknir en ég held að þjóðin tengi hann samt alltaf meira við skáldskapinn. Hér var farið með eitt af ljóðum Jónasar. Hann á að mínu mati eitt fegursta ástarljóð íslenskrar tungu, þ.e. Ferðalok, þar sem segir í síðasta erindi:

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg;

en anda sem unnast

fær aldregi

eilífð að skilið.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að vera með þessa fjölbreyttu persónu sem Jónas var að leiðarljósi þegar sett er upp svona sýning. Ég held að það sé líka alveg þess virði að draga fram unga manninn Jónas sem gekk hér um götur Reykjavíkur í bláum frakka og heillaði ungar konur og við getum lesið um í gömlum bókum. Sú persóna getur líka höfðað til unga fólksins, að þarna var þessi maður.

Það er líka mjög spennandi að fylgjast með því sem var að gerast í Kaupmannahöfn og sambandi þeirra frænda Jónasar og Skafta Tímóteusar sem var mjög sérstakt og hefur lítið verið haft uppi um, mér finnst að það sé eitthvað sem væri mjög þarft að draga betur fram í dagsljósið. Hvað segir hv. þingmaður?