146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[13:55]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Herra forseti. Allt er þegar þrennt er. Hér stígur í pontu þriðji þingmaður af tíu fyrir Norðausturkjördæmi, sem sagt, hér kveðja sjötti, sjöundi og áttundi þingmennirnir sér hljóðs og þriðji íslenskukennarinn, takk fyrir, gerið svo vel. [Hlátur í þingsal.]

Ég er afskaplega ánægður með þetta framtak hv. þm. Valgerðar Gunnarsdóttur og varð ákaflega glaður þegar mér bauðst að vera meðflutningsmaður að þessari tillögu. Ég vil líka taka undir þau orð hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur að vefurinn, jonashallgrimsson.is, er sérdeilis góður. Sá vefur, ásamt Vísindavef Háskóla Íslands, er mér örlítið haldreipi við ræðu mína hér.

Hver var þessi Jónas? Var það ekki kallinn sem kom heim til sín eftir skrall, datt í stiganum, braut sig svolítið illa og fékk svo illt í sárið og dó? Því að það var jú ekki komið pensilín? Ég veit það svo sem ekki. En það skiptir ekki öllu máli. Jónas Hallgrímsson var ekki bara eitt af hinum ástsælu skáldum heldur líka fræðimaður og mikill frumkvöðull á því sviði. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér örlitla klausu af Vísindavef Háskóla Íslands:

„Fáir gera sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var afbragðs þýðandi og skrifaði einnig töluvert um sitt fræðasvið, náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins. […]

Eitt af þekktustu kvæðum Jónasar er Gunnarshólmi. Þar er mörg orð að finna sem Jónas virðist hafa búið til. Þau falla svo vel að efni kvæðisins, eru svo lýsandi að lesandinn sér landið fyrir sér eins og opna bók. Hann sér fagurtæra lind himinblámans, byggðabýlin smáu, spegilskyggnd hrafntinnuþök og sælan sveitarblóma. Hann horfir í huganum á klógula ernina, sem hlakka yfir veiðinni, stendur á hlaðinu í rausnargarði og heyrir öldufallaeiminn frá ströndinni, hlustar á hafganginn við Eyjasand og sér fyrir sér borðfagra skeið (skip) sem bíður þeirra Gunnars og Kolskeggs. Á ferð eru skeiðfráir jóar (hestar) á leið með húsbændur sína til skips.

Í kvæðinu Ísland ávarpar Jónas landið sem hrímhvíta móður og talar um landnámsmenn sem frjálsræðishetjur. Í Vísum Íslendinga er sungið um gleðina sem skín af vonarhýrri brá, guðaveigarnar lífga sálarylinn og hátíðsdaginn köllum við í kvæðinu vonarstund. Aðra sýn fær lesandinn í ljóðinu Móðurást. Þar sér Jónas fyrir sér frostkaldan melinn þar sem móðir er á ferð með barn sitt um heldimma nótt, gefst upp fyrir veðurofsanum og finnst undir snjóhvítri fannblæju. Þarna býr Jónas til orð sem lýsa vel erfiðri ferð í íslenskum vetri þannig að lesandinn nemur vel kuldann og éljaganginn og getur samsamað sig móðurinni með barnið.“

Jónas bjó til miklu fleiri orð. Hann talaði um mundhvítar snótir, hafbláa öldu, himinskin, ástfagran svip, guðfagra sól, elfar ísbláar o.s.frv. Hann fann upp orð á borð við aðdráttarafl, sporbaug, fjaðurmagnað, miðflóttaafl. Einhvern tíma heyrði ég meira að segja að hann hefði fundið upp orðið Framsóknarmaður. Heimildir mínar fyrir því eru reyndar ekki af Vísindavefnum, bara að því sé haldið til haga. [Hlátur í þingsal.] Þess vegna segi ég það með ákveðnum fyrirvara.

Virðulegur forseti. Þetta er þarft verk sem hér er ýtt úr vör og vona ég svo sannarlega að það fái framgang.