146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að hlusta á náttúruvísindamanninn Ara Trausta fjalla um skáldið. Þegar ég hlusta á hv. þm. Ara Trausta, leitar hugurinn til allra náttúruljóðanna sem Jónas orti, t.d. þegar við horfum á Gunnarshólma, sem er stútfullur af stórkostlegum náttúrulýsingum, eins og hv. þm. Einar Brynjólfsson kom aðeins inn á áðan. Ég held að það séu mjög góðar heimildir um umhverfið og landslagið eins og það var á þessum tíma. En eins og einnig hefur komið fram var Jónas Hallgrímsson boðberi nýrra hátta inn í íslenska ljóðagerð. Meðal annars er hann talinn hafa ort fyrstu sonnettuna, sem er ítalskur háttur, en háttur ljóðsins Gunnarshólma heitir tersína, eða þrírím á íslensku, og er mjög sérstakur. En síðan eru tvö seinustu erindin sem heita oktava. Það eru hvort tveggja ítalskir hættir. Til þess er tekið hvernig Jónas dregur í raun niður í kvæðinu á yndislegan og hljóðlátan en samt sterkan hátt í þessum tveimur síðustu erindum.

Mér finnst þetta nokkuð góð hugmynd hjá hv. þm. Ara Trausta um eldfjallasýningu en velti því samt upp í tengslum við það hvort ekki sé ástæða til að setja upp sérstaka sýningu með þeim sem eru frumkvöðlar á því sviði.