146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

270. mál
[14:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að taka þátt í þessari umræðu um skatttekjur eða útsvarstekjur sveitarfélaga. Ég tek heils hugar undir að þetta er eitt af því sem við höfum verið að ræða um árabil, þ.e. hvernig við skiptum tekjum milli ríkis og sveitarfélaga, þetta er einn angi af því, þ.e. að dvelja um lengri eða skemmri tíma á eign sinni sem telst t.d. til frístundahúsa og greiða engin gjöld en þiggja þar margs konar þjónustu sem tilheyrir, hvort sem það er sorphirða eða annað slíkt.

Þetta á líka við um margt annað. Við þekkjum líka að sveitarfélög hafa orðið fyrir því að mikill fjöldi einkahlutafélaga hefur orðið til mjög víða sem hefur kannski skert tekjur sveitarfélaga meira en annars hefði orðið. Það er a.m.k. einhver skýring fólgin í því þar sem sá skattur rennur beint í ríkissjóð og er ekki til skiptingar fyrir sveitarfélögin.

Svo þekkjum við líka hvernig það er núna á stóru ferðamannastöðunum, mér dettur í hug Mývatnssveit, Skútustaðahreppur, sem er lítið sveitarfélag sem hefur á að skipa miklum fjölda starfsmanna yfir hábjargræðistímann sem ekki á lögheimili í sveitarfélaginu og er ekkert skikkaður til þess því það er vöntun á starfsfólki og það kemur í uppgripin. Það þarf að útbúa einhverja aðstöðu fyrir fólk eins og við höfum frétt af og er partur af húsnæðisskorti. Ýmislegt er lagt til en svo fara útsvarstekjurnar auðvitað á lögheimili viðkomandi aðila. Lítil sveitarfélög, og stærri auðvitað, verða af útsvarstekjum sem fylgja þessu.

Það hefur verið rætt við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis og eflaust fleiri, á ég von á, hvort ekki sé hægt með einhverjum hætti að skipta útsvarstekjunum þegar viðkomandi er í vinnu í öðru sveitarfélagi, ég veit ekki hvort það ætti að miða við tiltekinn tíma eða ákveðið hlutfall eða eitthvað slíkt, þar sem það sveitarfélag þar sem maður vinnur þiggur einhvern hluta útsvarstekna. Þetta á líka við eins og við þekkjum um vertíðarbissness og hreyfanleika vinnuafls þar sem maki er kannski að vinna í burtu í einhverjum lotum og kemur svo heim og þiggur náttúrlega þjónustu á báðum stöðum og skilar vinnuframlagi á öðrum. Þá skila tekjurnar sér ekki nema á annan staðinn.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar. Því veldur það vonbrigðum núna þegar við erum að fara að taka fjármálastefnuna til umræðu í næstu viku að ekki skuli hafa tekist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um þessa tekjuskiptingu annars vegar og svo líka um útgjalda- og viðmiðunarmörk. Það virðist ekki sjá til lands í þessu. En ég vona að þennan starfshóp verði hægt að skipa því að við höfum ekki verið beinlínis að horfa á þetta. Ég held að það hafi ekki verið horft til þess hjá fyrrverandi fjármálaráðherra og væntanlega ekki núverandi heldur þegar rætt hefur verið um að prósentan sé svo lág sem ríkið tekur til sín af heildarskattprósentunni og það renni töluvert til sveitarfélaganna. En einhvern veginn þarf samt sem áður að skipta tekjunum með sanngjörnum hætti út frá þessum sjónarmiðum. Það er eitt að hækka tiltekna prósentu eða þá að skipta þessu þar sem fólk dvelur stóran hluta úr ári eða skemmri tíma, það þarf að finna flöt á því að skipta þessu.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vona að það verði auðveldara að finna flöt á þessu en virðist vera í öðrum samningaviðræðum milli ríkis og sveitarfélaga þessa dagana um svo ótrúlega mörg mál og gráu svæðunum fjölgar alltaf. En þetta er gott mál og á svo sannarlega rétt á sér. Ég vona að það nái fram að ganga.