146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vextir og gengi krónunnar.

220. mál
[15:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutninginn. Fjárlaganefnd fékk yfirlit yfir lánamál ríkisins og ein af spurningum sem fjárlaganefnd sendi um lánamál var mat þeirra á áhrifum ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna á vaxtastig í landinu. Svarið var í rauninni að það væri mjög flókið að meta það en að ýmislegt benti til þess að ávöxtunarkrafan ýtti undir og hækkaði vaxtastig í landinu. Ég tek undir að það þarf sérstaklega að skoða þetta. Stærð höfuðstóls lífeyrissjóðanna með 3,5% ávöxtunarkröfu þarf að vera ansi mikil til þess að greiða út allar lífeyrisskuldbindingar. Við þurfum að átta okkur á því hversu stórt lífeyrisjóðskerfi við getum haft efnahagslega séð í landinu án þess að það hafi áhrif á ýmislegt eins og vexti almennings og samkeppnisstöðu, eins og talað hefur verið um hér í öðrum málum.

Ég þakka þessa þingsályktunartillögu. Hún hefur margt mjög áhugavert fram að færa.