146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vextir og gengi krónunnar.

220. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt í þingsályktunartillögunni sem miðar að því að fá betri upplýsingar um hvaða áhrif þetta muni hafa. Menn hafa bent á, t.d. bankamaður frá Kanada, Eric Stubbs, að ef gengið styrktist um 5% hefði það hugsanlega meiri áhrif til neysluaukningar en um þau 5%, sem byggi síðan til þann hvata að hér yrði aukið innstreymi og neikvætt viðskiptajafnvægi í vörum. En við búum við allt annað umhverfi í dag eftir að ferðaþjónustan er orðin svona stór og innflæði á erlendum gjaldeyri er í þeim mæli sem við höfum aldrei séð fyrr. Efnahagsumhverfið í dag er allt annað en það sem núverandi peningastefna var mótuð í árið 2002 eða 2003. Þess vegna er augljóst að það þarf að skoða hana, og ég tek undir með ríkisstjórninni í því að það þarf að setja á laggirnar endurskoðunarnefnd peningastefnu. Ég hefði auðvitað kosið að peningastefnan hefði verið gerð í víðtækara samráði en raun bar vitni þar sem hún gildir fyrir alla Íslendinga.

Hér er lögð áhersla á víðtækt samráð allra flokka, ekki síst að fá til þess óháða aðila. Í okkar litla landi er stundum nauðsynlegt að fá erlenda aðila til að skoða þau kerfi sem við höfum búið við því að menn eru oft og tíðum, eins og hv. þingmaður benti á og vísaði til fundar fjárlaganefndar, svolítið fastir í skoðunum sínum út frá þeim stöðum þar sem þeir hafa völd og hagsmuni sem þeir þurfa að verja og tala fyrir. Í því skyni er tillagan líka um að skoðunin verði gerð af óháðum aðilum, jafnvel erlendum, í samstarfi við (Forseti hringir.) hið pólitíska vald hér á þinginu.