146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

fjarfundir á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar.

273. mál
[15:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að leggja fram þetta mál og fylgja eftir þingmálum fyrrverandi hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur sem vakti athygli á þessu, eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði grein fyrir, með fyrirspurnum um þetta efni sem lagðar voru fram á síðasta kjörtímabili. Hér gengur hv. þingmaður skrefinu lengra og leggur til framkvæmd til að laga þann misbrest sem er til staðar samkvæmt svörum sem komu við þeim fyrirspurnum.

Ég ætla ekki að tala lengi um þetta mál en vil fagna því að hér sé lögð til innleiðing á sameiginlegum verklagsreglum fyrir öll ráðuneyti Stjórnarráðsins vegna fjarfunda og notkunar fjarfundabúnaðar á slíkum fundum í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneyti.

Það sem kom fram í ræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttir er einstaklega mikilvægt en það er að jafnframt verði lögð áhersla á eftirfylgni verkefnisins, hvernig innleiðingarferlið hafi gengið og hvernig gangi að nýta þessa tækni sem við höfum svo sannarlega og er til staðar á fundum og færa þannig ráðuneyti í ákveðinni mynd út til landsbyggðarinnar og auðvelda sveitarstjórnarmönnum og fólki sem vinnur hjá hinum ýmsu fyrirtækjum, sinnir ýmissi stjórnsýslu og öðrum verkefnum að hafa aðgang að ráðuneytum.

Það er nefnilega svo, allavega í umræðunni, að ýmis þjónusta hefur færst í auknum mæli til höfuðborgarsvæðisins. Fólk þarf oftar nú en áður að sækja þessa þjónustu til höfuðborgarinnar. Það er ábyrgðarhluti að við horfum á hvernig hægt er að auðvelda fólki þessi samskipti. Það kemur mér í raun töluvert á óvart það sem kemur fram í greinargerðinni að í svörum við þeim fyrirspurnum sem voru lagðar fram á síðasta kjörtímabili kemur fram að í fæstum tilvikum hefur starfsfólkið hlotið þjálfun í notkun fjarfundabúnaðar og aðeins í einu tilviki hefur ráðuneyti mótað sér og kynnt stefnu í þessum málum. Það kemur fram að það sé mjög misjöfn aðstaða í þessu á milli ráðuneyta. Það er mjög mikilvægt að það sé samræmi á milli þessara þátta.

Eins og fram kom er tæknin til staðar. Þekkingin er til staðar í flestum tilvikum. Við verðum að horfa á hvernig við getum gert fólki það auðveldara. Það er mikill munur t.d. fyrir fólk á Vestfjörðum, ef ég horfi bara á Norðvesturkjördæmi, að geta sest fyrir framan tölvu eða annan fjarfundabúnað og átt fund. Tíminn er dýrmætur. Þannig nýtist tíminn betur fyrir fólk. Það skiptir öllu máli, fyrir utan þægindin.

Þetta er löngu tímabært verkefni, ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið. Mig langar einnig að segja að þetta hlýtur að spara í öllu ferlinu, öllu kerfinu, gríðarlega fjármuni því öll ferðalög eru dýr, tíminn kostar peninga. Ég vona svo sannarlega að þessi þingsályktunartillaga hreyfi við fólki, fái umræðu innan hv. Alþingis og fari fljótt og vel hér í gegnum hv. Alþingi. Við sjáum vonandi strax í haust betrumbætur í þeim málum sem varða fjarfundabúnað og aðgengi fólks á landsbyggðinni að ráðuneytum og stjórnsýslu ráðuneytisins.