146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem hægt að gagnrýna það og margir hafa bent á að þetta sé ekki alveg nógu djarft. Því er til að svara að ég tel líklegra að við náum þessu í gegn og getum hafist handa ef við erum það raunsæ að við náum meiri hluta fyrir þessari tillögu. Við megum heldur ekki gleyma því að það eru fleiri að byggja. Það eru auðvitað einstaklingar á frjálsum markaði. Hér erum við að tala um leiguíbúðir sem ekki fara inn í hagnaðardrifið kerfi, en það eru aðrir að byggja. Á höfuðborgarsvæðinu eru núna 4.000 íbúðir í byggingu og menn telja að til séu lóðir til þess að mæta þessum skorti á næstu þremur til fjórum árum, fyrir utan það sem byggt er úti á landi.

Mér finnst þetta ágætisábending og í rauninni skemmtileg viðbrögð, vegna þess að hlutverk okkar núna á næstu dögum og vikum hlýtur að vera að safna saman öllum þeim hugmyndum sem nýst geta til þess að mæta þessari þörf og ekki síður til þess að auka jöfnuð í landinu. Það er ömurlegt í þessari brjálæðislegu uppsveiflu, þessum meinta stöðugleika, að það gerist ekkert annað en að sífellt stærri hópur situr eftir og nýtur ekki gæðanna.