146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég held að þúsund sé alls ekki nóg. Eins og ég sagði áðan þá teflum við fram hugmynd sem við teljum að sé það raunsæ að menn ættu ekki að hika við að hoppa á hana og taka svo inn fleiri úrræði. Eins og hv. þingmaður segir er það alveg merkilegt hvernig staðið er að talningunni. Við erum að tala um risastór hús, þetta eru ekki ósýnilegir hlutir, þetta eru stórir hlutir, fýsísk fyrirbrigði. Það er merkilegt að menn skuli nota sömu aðferðir hér og við að telja farfugla sem koma til landsins. Í rauninni ættu að liggja miklu nákvæmari greiningar fyrir, ekki síst vegna þess að mannvirki eru í rauninni dýrasta fjárfestingin sem menn leggja í á ævinni. Byggingariðnaðurinn er gríðarlega mengandi, þannig að það er líka beinlínis rangt og vitlaust að byggja meira en maður þarf þannig að við aðrar aðstæður getur líka verið gott að það liggi fyrir.

Hvað varðar hækkunina hlýtur hún að vera bein afleiðing af því að hér hefur ríkt skortmarkaður. Menn neyðast til þess að kaupa allt sem þeir mögulega geta. Það er náttúrlega það sem er svo óhuggulegt að nú nýtur hinn frjálsi markaður sín til fulls. Núna geta menn grætt eins og þeir vilja vegna þess að þeir vita að það eru svo margir sem búa við brýna neyð og þurfa að komast í húsaskjól. Það er þrátt fyrir allt ein af grunnþörfum okkar að hafa þak yfir höfuðið. Við verðum að spýta í lófana.