146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að við þurfum að vinda okkur í að byggja, en við þurfum að passa okkur á því samt að þetta er langtímafjárfesting og við þurfum að byggja á sjálfbæran hátt, ekki bara að húsin séu það heldur að hverfin og byggðin sé sjálfbær. Þótt það geti verið aðeins tafsamara að byggja blandað og þétt þá verðum við að gera það, alla vega að hluta til, þótt við nemum auðvitað líka ný lönd. Við getum líka náð niður byggingarkostnaði eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir og fyrrverandi ráðherra hefur margoft bent á, við getum byggt minna húsnæði. Meðal-Finni býr í 34 fermetrum á meðan Íslendingurinn býr í 64, sem sýnir að við getum náð árangri þar. Það er þó fyrst og fremst við sem búum í allt of stórum húsum sem eigum að minnka við okkur. Ég held að við séum komin að ákveðnum þolmörkum hjá mjög mörgum fjölskyldum sem hafa ekki efni, þær búa örugglega mjög þröngt.

Rétt að lokum af því að hv. þingmaður talaði um hvernig það virkar að kaupa og leigja. Ég veit ekki hvort hann hefur kynnt sér hugmyndir okkar fyrir kosningar um forskot á fasteignamarkaði þar sem mönnum gæfist kostur á því að fá vaxtabæturnar fimm ár fyrir fram til þess að komast yfir þennan þröskuld. Ég veit að það er hægt að benda á ýmislegt gallað við þá hugmynd, en hún var alla vega leið til þess að taka líka á bráðavandanum því að það er ömurlegt að sjá fólk sem borgar kannski tugprósentum hærri leigu en það væri að gera ef það væri bara hægt að hjálpa þeim yfir þröskuldinn og inn í sitt eigið húsnæði.