146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kynnti mér þessa fyrirframleið til að hoppa yfir þröskuldinn, en hún er þeim galla bundin eins og margar aðrar lausnir að hún er tímabundin, hún rétt reddar þeim sem þurfa á þessu að halda núna en gerir kannski að verkum að það verður jafnvel meira vandamál fyrir þá sem á eftir koma af því að verðið blæs upp, eins og leiðréttingin hefur t.d. gert líklega að einhverju leyti.

Ég bý nú í 25 fermetrum með fjölskyldunni, eða 100 deilt með fjórum, eftir því sem ég best veit þá eru það kannski einbýlishús úti á landi sem eru með hvað versta nýtingu, ég giska á það, ég þori ekki alveg að fara með það, en það er það sem ég hef heyrt frá þriðja aðila. Annars er ég algjörlega sammála því sem hv. þingmaður segir um uppbyggingu á hverfum og samfélögum. Við verðum alltaf að hugsa um að við erum samfélag manna og við búum með nágrönnum okkar í sátt og samlyndi og hittumst í skólunum með krökkunum okkar o.s.frv. Þetta er vandasamt verkefni en við ættum að vera komin með mjög góða reynslu, miðað við núverandi aðstæður, til að geta leyst þetta á þann hátt að við förum ekki offari. Það vantar hvort eð er það mikið af íbúðum þannig að þótt við myndum spýta dálítið í lófana þá myndum við ekki skjóta yfir markið áður en við áttuðum okkur á því að við værum að stefna í þá átt.