146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingflokki Samfylkingarinnar fyrir að leggja fram þetta mál um uppbyggingu leiguíbúða. Ég myndi gjarnan vilja fá að styðja það að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu þrjú ár þar á eftir. Það er jákvætt að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að tvöfalda framlag til byggingar almennra íbúða á þessu ári. Ég fann það sjálf, þegar ég var í velferðarráðuneytinu og sinnti húsnæðismálunum, að árið 2016, þegar við vorum að úthluta í fyrsta sinn í gegnum almenna íbúðakerfið, þurfti sannarlega að bæta við fjármunum. Kostnaður hafði aukist frá því sem við höfðum áætlað, en þrátt fyrir það náðum við að tryggja fjármagn til þeirra verkefna sem uppfylltu þau skilyrði sem má finna í lögunum.

Í minni tíð sem ráðherra húsnæðismála lagði ég megináherslu á fjölbreytni, að við ættum að geta boðið upp á fjölbreytt rekstrarform á húsnæðismarkaði. Ég tók hins vegar mjög gjarnan eftir því í umræðunni að þegar ég talaði fyrir ákveðnum tillögum sem sneru að einu rekstrarformi þá var eins og búið væri að taka ákvörðun um að þá væri ég að tala niður annað rekstrarform. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ítreka það enn á ný að þó að ég telji rétt að við fjölgum almennum íbúðum og aukum fjármagn til þess kerfis er ekki þar með sagt að við eigum ekki að huga að öðrum heimilum.

Hér hefur töluvert verið talað um gamla verkamannabústaðakerfið. Ég held að það hafi verið sambærilegt skref ef ekki stærra sem við stigum í tengslum við kjarasamninga árið 2015 þar sem ríkisstjórnin gaf frá sér yfirlýsingu til að mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar og liðka fyrir gerð kjarasamninga með því að byggja upp almenna íbúðakerfið þar sem almennt verkafólk á vinnumarkaði hefði möguleika á því að fá öruggt leiguhúsnæði á hagstæðu verði. Það sem mér þótti mjög mikilvægt í þeirri yfirlýsingu er að sett var inn ákveðið viðmið um það hver kostnaðurinn við húsnæðið ætti að vera. Ef ég fæ að rifja upp þessa yfirlýsingu þá segir hér, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni Fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða:

„Lagður verður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt um 30% af stofnkostnaði. Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20–25% af tekjum. Lögaðilar sem hyggjast byggja og reka félagslegt leiguhúsnæði geta verið sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verði skorður“ — þar horfðu menn til reynslu úr fyrri kerfum og átökum sem áður hafði verið ráðist í um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða — „fyrir því að hægt verði að taka íbúðir út úr félagslega leigukerfinu en verði slíkt heimilt verða sett ákvæði um ráðstöfun söluhagnaðar.“

Og áfram segir:

„Ráðist verði í átak um byggingu félagslegra leiguíbúða. Stefnt er að því að byggja 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. á árunum 2016–2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári. Að því loknu verður metin þörf á áframhaldandi uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis, m.a. að teknu tilliti til stöðu opinberra fjármála. Áhersla verður á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum.

Miðað verður við að tekjur íbúða verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum, en við frekari forgangsröðun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda. Settar verða reglur um það með hvaða hætti heildarfjölda heimila eða félagslegra íbúða verði skipt milli ólíkra markhópa og framkvæmdaaðila.“

Þetta síðasta ákvæði hefur verið ítrekað í nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að helmingurinn af þeim 2.300 íbúðum sem er búið að lofa fjármagni til fari til verkalýðshreyfingarinnar og Bjarg íbúðafélag, félag sem ASÍ og BSRB hafa stofnað, mun sækja um fjármagn, stofnframlög, frá ríki og sveitarfélögum sem samsvara helmingi af því fjármagni. Hér var því gífurlega stórt skref stigið.

Það liggur fyrir að fyrirmyndin að þessu er gamla verkamannabústaðakerfið og júní/júlí-samkomulagið, eins og menn hafa rætt fram og til baka, sem það byggði á. Munurinn er hins vegar sá, og það er það sem menn hafa oft spurt um, að í gamla kerfinu var sagt við fólk að það væri að eignast íbúð en hér erum við að tala um leiguhúsnæði. Það má segja að verið sé að reyna að koma í veg fyrir það sem gerði það að verkum að verkamannabústaðakerfið var lagt niður á endanum, þ.e. ekki er verið að segja við fólk að það eignist eitthvað sem það raunverulega getur ekki eignast. Lánafyrirkomulagið í gamla verkamannabústaðakerfinu var þannig að útborgun var það lág og afborganir það lágar að eignamyndunin var nánast engin. Þar af leiðandi má segja að fólk hafi verið að leigja þó að það hafi þannig séð verið búið að skrifa undir lánapappíra.

Í almenna íbúðakerfinu sem Alþingi samþykkti hér fyrir tæpu ári, síðasta vor, var byggt á þeim grunni að leigjendur sem væru undir þessum tekjumörkum þegar þeir flytja inn í húsnæðið geti búið þar áfram þó að tekjur þeirra hækki; það mun þá endurspeglast í breytingu á leigunni til að áfram sé horft á það viðmið.

Töluverð umræða hefur orðið um breytingar á húsnæðisbótakerfinu. Ég vil því gjarnan fá að nota tækifærið hér og nefna að þær breytingar sem var verið að gera þar voru einmitt hugsaðar til að mæta fólki á vinnumarkaði. Hugsunin með því var sú að það ætti ekki að skipta máli hvaðan tekjur fólks koma, stuðningur hins opinbera eigi að vera sambærilegur. Breytingar á húsnæðisbótakerfinu skiptu mjög miklu máli til þess að við næðum þessu 20–25% viðmiði varðandi tekjur þegar búið væri að taka tillit til húsnæðisstuðnings.

Í umræðunni hefur verið rætt um ýmislegt fleira og þá ekki hvað síst þegar við förum að tala um kaupendamarkaðinn sjálfan. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fólk hafi svigrúm með því að borga lága leigu til að leggja til hliðar. Ég vil hins vegar líka leggja áherslu á það sem birtist í öðrum hluta yfirlýsingarinnar og snýr að stuðningi við unga fólkið og fyrstu kaupendur en hugsunin með lögunum sem við samþykktum, um notkun á séreignarsparnaði til að borga út í íbúð, var sú að um leið og einstaklingur fer inn á vinnumarkaðinn gæti hann lagt til hliðar. Við byrjum að borga í lífeyrissjóð þegar við erum 16 ára ef við byrjum að vinna þá. Þar af leiðandi getum við líka strax byrjað að leggja til hliðar í gegnum séreignarsparnaðinn. Það er gífurlegur munur á því að ná að spara þegar maður er þetta ungur, býr enn þá heima, er ekki með útgjöldin, er ekki með börn á framfæri; að byrja t.d. að leggja til hliðar strax 16 ára, foreldrar jafnvel frá því að barn fæðist. Þegar námi lýkur, kannski kringum 25 til 26 ára aldurinn, gæti fólk þá sjálft verið búið að leggja til hliðar í 10 ár — og jafnvel í 25–26 ár ef foreldrar fara að leggja til hliðar um leið og barn fæðist.

Í öllum þessum kerfum er horft langt fram í tímann, til framtíðar. Eins og komið hefur fram í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Loga Einarssonar, þá er mikilvægt að við hugsum til langs tíma. Fasteignir lifa lengi. Þetta eru stærstu einstöku skuldbindingarnar sem hver og einn einstaklingur, eða hver og ein fjölskylda, tekur á sig, þ.e. að eignast húsnæði. Það er líka ákveðin skuldbinding að gerast leigjandi og stofna eigið heimili. Þess vegna er svo mikilvægt, þegar við hugum að tillögum og tillögugerð, að við hugsum til langs tíma.

Ég hef sjálf stundum sagt: Það hvernig staðan er núna segir ekki endilega til um það hvernig hún verður eftir fimm ár. Þess vegna eru þættir eins og áætlunargerð, sem við höfum alls ekki staðið okkur nógu vel í, mjög mikilvægir. Það er mjög mikilvægt að við gefum þessu kerfi og þessum kerfisbreytingum tækifæri til að ná að verða það sem við sáum fyrir okkur að gæti orðið; að við séum ekki einungis að horfa eitt ár fram í tímann heldur áratugi. Vonandi jafnvel kannski árhundruð eins og við höfum séð í nágrannalöndum okkar varðandi sambærileg kerfi.