146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

viðvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:03]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, það er alveg óviðunandi að ráðherra umhverfismála sjái sér ekki fært að mæta hér í óundirbúnum fyrirspurnum í dag. Þannig er mál með vexti að upp er komið mjög alvarlegt mengunarmál og við þurfum að eiga orðastað við hæstv. ráðherra fyrr en seinna um það hvað hæstv. ráðherra hyggst gera varðandi það mál. Við stofnum heilsu og lífi fólks mögulega í hættu með þeirri arsenikmengun sem þarna er. Það er nauðsynlegt að brugðist við verði við því hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Það væri gott að fá að vita hvernig á því stendur að hæstv. ráðherra tilkynnir forföll í óundirbúnum fyrirspurnum með svona skömmum fyrirvara.