146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

viðvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Nú hefur þetta mengunarmál varðandi United Silicon í Helguvík staðið yfir nokkuð lengi. Ákvarðanatakan um það hvernig standa skuli að málinu hefur verið hægfara. Á þessum tímapunkti, þegar við höfum fengið upplýsingar um töluvert meiri mengun af mjög alvarlegu tagi frá verksmiðjunni en gengið var út frá, tel ég nauðsynlegt að hæstv. umhverfisráðherra komi hér og svari fyrir það. Þetta er brýnt mál. Það hefur verið brýnt alveg frá því fyrir jól og jafnvel lengur. Núna þurfum við að fara að fá botn í það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)