146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

einkavæðing Keflavíkurflugvallar.

[15:14]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í mínum huga er hann að ræða hérna um nokkur atriði. Það sem ég vakti athygli á er, og það er mín skoðun og er áfram mín skoðun, að mjög kalli á mikla uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli fyrir tugi milljarða. Mér finnst því alveg spurning hvort sú uppbygging eigi að vera að öllu leyti á hendi ríkisins, það eru þá skattpeningar sem eru nýttir í það, eða hvort einhvers konar þolinmótt fjármagn megi komast þar að, eins og mér finnst líka allt í lagi í stórum vegaframkvæmdum, það er líka mín skoðun. Lífeyrissjóðir er t.d. dæmi um það.

Það sem forstjóri Isavia nefndi síðan er líka annar þáttur sem er allt í lagi að ræða um, en hv. þingmaður fær mig ekki til þess að fara á einhvern hátt að rífast við forstjóra Isavia sem ekki er hér til að svara fyrir það sem ég myndi þá vilja segja við hann. Við vinnum þetta bara í góðri sátt og sameiningu.

Það er alveg augljóst að stækka þarf flugvallarsvæðið á Keflavíkurflugvelli. Það er síðan spurning og allt annað mál hvort byggja eigi það upp algjörlega án þess að spyrja hvað aðrir innviðir hér á landi þola. Ef þetta svæði er aðalgáttin inn í landið og markmiðið er bara eitt, þ.e. að stækka til að geta tekið á móti öllum sem vilja koma, þá þarf líka að spyrja: Hvernig tekur samgöngukerfið við? Hvernig tekur vinnumarkaðurinn við því? Hvernig húsnæðismarkað erum við með til að taka við þessu fólki?

Það er líka allt annað, finnst mér, hvort ríkið eigi til að mynda flugbrautir, sem er mikið öryggisatriði, eða ríkið eigi fríhöfn og verslanir sem selja snyrtivörur. Mér finnst eðlismunur þarna á. Það var eingöngu það sem ég var að opna á.