146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

einkavæðing Keflavíkurflugvallar.

[15:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Isavia er ohf., sem þýðir að það er hlutafélag í opinberri eigu, sem þýðir að ábyrgðin hlýtur að vera ríkisins, a.m.k. með óbeinum hætti, ef hlutirnir fara ekki eins og stefnt er að. Ég ætla ekki að segja hér að miklar líkur séu á einhvers konar kerfishruni í ferðaþjónustunni, ég forða mér frá því. Við erum öll sammála um að það skipti máli að vanda þar til verka. Ef við værum hins vegar búin að eyða, segjum 80 þús. milljónum í uppbyggingu og ohf. gerir það, og eitthvað kemur upp á, þá koma ekki inn tekjur á móti, þannig að ábyrgðin er alltaf óbeint ríkisins.

Ég er alveg talsmaður erlendrar fjárfestingar. Ég ætla ekki að hætta að vera það þrátt fyrir að upp komi ýmis atvik, hvort sem það var í hruni fyrir áratug síðan eða mun koma upp í framtíðinni. Við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda. Ég ætla ekkert að tala mig út um það hvort það eigi að vera erlend fjárfesting eða lífeyrissjóðir, hvers konar þolinmótt fjármagn, (Forseti hringir.) það eina sem ég sagði var að mér fyndist ekki sjálfsagt (Forseti hringir.) að uppbygging á Keflavíkurflugvelli ætti öll að vera í höndum ríkisins. (Forseti hringir.) Ég er enn þá þeirrar skoðunar.