146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

mengun frá United Silicon.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og traustið að beina henni til mín. Það verður að segjast eins og er að ég sem heilbrigðisráðherra hef ekki haft þessi mál á borðinu hjá mér og á erfitt með að svara fyrir hæstv. umhverfisráðherra og vinnu hennar eða vinnu í ráðuneyti hennar. Ég þykist þó vita, og hef heyrt það, að málefni þessarar verksmiðju hafa verið sérstaklega uppi á borðinu undanfarið enda hafa margar fréttir verið af vandræðagangi í rekstrinum.

Auðvitað mun hætta á heilsutjóni þar koma beint mitt á borð og okkar á heilbrigðissviði velferðarráðuneytisins en það er ekki komið þangað enn. Ég get því eiginlega ekki svarað nákvæmar fyrir hæstv. umhverfisráðherra í þessu samhengi. Ekki hefur komið sérstaklega til tals að ræða þetta mál á þverfaglegum grunni ráðherranna, ekki svo ég viti, en ég vil alls ekki útiloka að það geti verið gáfulegt. Eins og er veit ég lítið meira um þetta mál en það sem stendur í fjölmiðlum og hv. þingmaður vitnar væntanlega til. Ég verð að svara því þannig að réttast sé að fá upplýsingar um það frá hæstv. umhverfisráðherra.