146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil inna hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, ef má kalla hann svo, eftir því hvað sé að frétta af vinnu stjórnvalda við þau mál. Nú er að mér skilst búið að skipa í fyrsta lagi aðgerðahóp fjögurra ráðherra, það var gert í lok febrúar, og þar boðað að innan skamms kæmu listar yfir aðgerðir og síðan átti hæstv. ráðherra fund með fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaða þess fundar var að skipa starfshóp stjórnvalda með fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Allt er þetta nú gott og blessað en við hljótum að spyrja um aðgerðir og ekki síst þann hæstv. ráðherra sem hefur sjálfur haft uppi stór orð um það ófremdarástand og þann skort sem hér sé við að glíma. Hvað er að frétta af þessu starfi? Mun ríkisstjórnin leggja á borðið í þessa vinnu aukna fjármuni? Stendur t.d. til að reyna að hraða og auka umfang uppbyggingar á leiguhúsnæði? Því að ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra að skorturinn er auðvitað stór hluti af þessum vanda.

Hvað með innrás ferðaþjónustunnar á íbúðamarkaðinn? Verður það undir í þessari vinnu að setja einhverjar skorður við því að jafnvel jafn margar eða fleiri íbúðir fari úr almennri notkun yfir í ferðaþjónustu sem nemur því sem reynt er að byggja upp á hverjum tíma af nýjum leiguíbúðum, þannig að við spólum í sama farinu? Hvað með innrás leigufélaga í hagnaðarskyni inn á fasteignamarkaðinn sem við höfum horft upp á undanfarin misseri, með þeim afleiðingum m.a. að leiga hefur snarhækkað og nú er tekinn arður út úr þeirri mynd?

Það væri fróðlegt að vita aðeins hvers er að vænta í þessum efnum. Hvenær er að vænta tillagna eða niðurstaðna og hvaða efnivið ætlar núverandi hæstv. ríkisstjórn að setja í einhverja úrlausn þessara mála?

Að síðustu get ég ekki annað en spurt hæstv. ráðherra úr því ég hef færi á því hvort hann sé sáttur við svar félaga síns hæstv. fjármála- og (Forseti hringir.) efnahagsráðherra hvað varðar svonefndan lánsveðshóp sem birtist hér í síðustu viku þar sem á mannamáli er sagt að ríkisstjórnin ætli ekki að gera neitt.