146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er skemmst frá því að segja að þessari vinnu miðar ágætlega. Við sögðum strax í upphafi að það væri ekki tilgangur þessa hóps að leggjast í löng skýrsluskrif enda hafa þær æðimargar verið skrifaðar um vanda húsnæðismarkaðarins á undanförnum árum heldur fyrst og fremst að koma fram með gagngerar tillögur til umbóta. Ég vænti þess að niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum. Við funduðum með bæjarstjórum og borgarstjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku þar sem var einmitt farið yfir hverjar hugmyndir þeirra væru um hvað hægt væri að gera í þessum málum. Niðurstaðan var ekki að stofna nýjan starfshóp heldur einfaldlega að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu tilnefna tvo til þrjá fulltrúa í þann hóp sem er að störfum til þess að fylla betur inn í þá mynd sem þar er verið að reyna að draga upp. Við munum síðan kynna þær aðgerðir sem við teljum raunhæfar til úrbóta.

Þetta er fjölþættur vandi. Auðvitað liggur hann fyrst og fremst í framboðsskorti og þar horfum við til hvernig við getum skerpt á skipulagi höfuðborgarsvæðisins og víðar á landsbyggðinni hvað ábyrgð sveitarfélaga varðar að tryggja nægilegt framboð lóða eða húsnæðis á móti væntri eftirspurn. Sá vandi sem við glímum við var algerlega fyrirsjáanlegur og magnast upp núna vegna þess hversu lítið framboð af húsnæði kemur nýtt inn á markaðinn.

Þar munum við sjá merki strax í þeim málum sem ég legg fram fyrir þingið í vor þar sem við gerum tillögur til úrbóta. Við boðum ekki að ríkisvaldið komi inn með stórkostleg útgjöld heldur er fyrst og fremst horft til þess hvernig við liðkum fyrir uppbyggingu á fasteignamarkaði.

Varðandi innkomu leigufélaga og uppbyggingu almennra leiguíbúða þá er búið að veita umtalsvert viðbótarfjármagn þar. Þess mun líka sjá stað í fimm ára ríkisfjármálaáætlun sem kynnt verður að lögð verður aukin áherslu á uppbyggingu svonefndra almennra íbúða. Það verður líka að hafa í huga að hér hefur heillengi verið talað (Forseti hringir.) um þörfina á að auka framboð af leiguhúsnæði. Hluti af því verður í félagslegu formi en hluti af því verður líka alltaf rekinn af einkaaðilum. (Forseti hringir.) Það þarf ekki út af fyrir sig að vera alslæmt enda hefur komið fram að leiguverð hefur hækkað minna en fasteignaverð á undanförnum misserum.