146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[15:33]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Á vef Bjartrar framtíðar, flokks hæstv. heilbrigðisráðherra, er að finna eftirfarandi klausu, með leyfi forseta:

„Endurreisum heilbrigðiskerfið, með stórbættri heilsugæslu um land allt, öldrunarþjónustu, lýðheilsu og forvörnum, nýjum Landspítala, betra gæðaeftirliti og miklu, miklu minni greiðsluþátttöku sjúklinga.“

Ég hygg að enginn setji sig upp á móti þessu nema síður sé og hefðu þessi orð vafalítið getað staðið sem stefnumál hvaða stjórnmálaflokks sem er.

Frú forseti. Það horfir eilítið öðruvísi við þegar menn eru í færum til að gera raunverulega eitthvað í málunum. Þarna er ég að sjálfsögðu að vísa til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra kemur einmitt úr nefndri Bjartri framtíð. Nú ber svo við samkvæmt frétt sem birtist í Morgunblaðinu fyrir helgi að stór hluti fólks 67 ára og eldri veigrar sé við því að leita til tannlæknis vegna kostnaðar og einungis um helmingur fólks á þessum aldri fór til tannlæknis í fyrra. Sjúkratryggingum Íslands ber að endurgreiða þrjá fjórðu hluta tannlæknakostnaðar ellilífeyrisþega, en endurgreiðsla sem fólk fær er í raun talsvert minni þar sem hún miðast við úrelta gjaldskrá.

Staðan er því sem sagt þessi, frú forseti: Fólk veigrar sé við því að leita eftir sjálfsagðri og eðlilegri heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Einnig kemur fram í Morgunblaðinu að hæstv. ráðherra Óttarr Proppé gaf ekki kost á viðtali um málið.

Hæstv. forseti. Það fer ekki vel á því að láta málið liggja og tel ég að ekki verði hjá því komist að ráðherra svari þessu skýrt því það er nú einu sinni þannig með okkur mannfólkið að við finnum til á öllum aldri. Við finnum til þegar Karíus og Baktus banka upp á. Að mínu viti verður að bregðast við þessum vanda með einum eða öðrum hætti.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að standa við miklu, miklu minni greiðsluþátttöku sjúklinga eins og svo fallega er skrifað á heimasíðu Bjartrar framtíðar.