146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[15:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa sérstöku umræðu, fyrir hennar góðu ræðu og ágætu spurningar. Nú í vor verða 42 ár síðan lög nr. 25/1975, lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, voru samþykkt hér á Alþingi og hafa engar efnislegar breytingar verið gerðar á lögunum síðan þau voru samþykkt. Í mars 2016 skipaði heilbrigðisráðherra, þ.e. forveri minn, nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun á lögum nr. 25/1975 og var skýrsla nefndarinnar kynnt og birt í febrúar sl. þar sem opnað var fyrir þann möguleika að senda inn athugasemdir við skýrsluna. Í skýrslunni eru tillögur að breytingum.

Nefndin tók sérstaklega mið af þróun á sviði mannréttinda í þá átt að auka sjálfsforræði einstaklinga. Þá er ég að tala um rétt einstaklinga til að taka ákvarðanir um eigin hagsmuni sjálfir sem meðal annars endurspeglast í fjölmörgum alþjóðlegum samningum og dómafordæmum; margt hefur bæst við og verið samþykkt í þeim efnum, það segir sig kannski sjálft, margt sem við Íslendingar höfum gengist undir frá því að lögin voru sett árið 1975. Í því samhengi má nefna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var nýlega fullgiltur hér á landi. Þar er höfuðáhersla lögð á sjálfsforræði einstaklinga með fötlun. Þar eru ákvæði þess efnis að fatlaðir einstaklingar skuli njóta réttinda til jafns við aðra, að þeir skuli taka eigin ákvarðanir og virða skuli líkamlega og andlega friðhelgi þeirra. Það er í takt við það sem hv. þingmaður ræddi í ræðu sinni.

Í ljósi þessarar þróunar var nefndin einhuga um að nauðsynlegt væri að gera breytingar á lögum nr. 25/1975 með það fyrir augum að tryggja og undirstrika rétt hvers einstaklings til sjálfsforræðis yfir sínum líkama sem og rétt hvers einstaklings til að taka ákvörðun um barneign. Nefndin var einhuga um að ný lög þyrftu að endurspegla nýja sýn á rétt kvenna og sjálfsforræði með það að leiðarljósi að konur ættu rétt á að taka ákvörðun um framtíð sína, heilsu og líkama, með ráðgjöf og aðstoð fagfólks ef þörf væri á. Eina leið til að ná því markmiði taldi nefndin vera að aðgangur að öruggum fóstureyðingum yrði að vera greiður og óhindraður fram að tilteknum tímapunkti. Þær breytingar sem nefndin leggur til eiga að miklu leyti rætur í reynslu af núverandi lögum, þeim þjóðfélagslegu breytingum sem orðið hafa á síðustu áratugum, tæknilegri þróun læknavísindanna og þeim hugmyndafræðilegu áherslum sem kynheilbrigði byggist á. Auðvitað skoðaði nefndin líka stöðu þessara mála í öðrum löndum, í nágrannalöndum og þeim löndum sem við miðum okkur við.

Skýrsla nefndarinnar, sem var birt í febrúar sl., ber með sér skoðun en líka tillögu nefndarinnar um endurskoðun laga. Næsta skref er að vinna úr tillögu nefndarinnar og setja upp frumvarp til nýrra laga. Gera má ráð fyrir að hægt verði að leggja frumvarp fram á vorþingi 2018.

Það er vilji minn sem ráðherra að fara að góðum ráðum nefndarinnar sem koma fram í skýrslunni, að þörf sé á að endurskoða lögin, að þörf sé á að byggja að miklu leyti á tillögum nefndarinnar eða taka þær mikið til fyrirmyndar í þeirri vinnu. Það var líka hluti af undirbúningi slíkrar lagasetningar að birta skýrslu nefndarinnar, kalla eftir athugasemdum um skýrsluna og um tillögur sem koma fram í skýrslunni, taka þann safnlið, skulum við segja, með okkur í undirbúningsvinnuna við að semja nýja löggjöf sem síðan yrði kynnt áður en hún yrði lögð fyrir Alþingi og færi í gegnum venjulega þinglega meðferð. Mér finnst mjög mikilvægt að svona vinna fari fram í sem allra mestu samráði við almenning allan, einkum í tilfelli svona málaflokks sem á við okkur öll en alveg sérstaklega helming landsmanna sem eru konur.

Ég legg sérstaka áherslu á þann punkt sem hv. þingmaður bendir á varðandi sjálfsákvörðunarrétt fatlaðra. Ég styð þá tillögu nefndarinnar að aldurstakmark sé lækkað úr 25 árum í 18, hreinlega til samræmis við almennan sjálfræðisaldur í þessum málum eins og öðrum. Ég kem vonandi aðeins betur að því í lokaræðu minni.