146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og aðrir hér, þakka kærlega fyrir þessa umræðu og svör ráðherrans varðandi fyrirspurnirnar sem komu fram í upphafi.

Þó að frummælandi hafi tekið ákvörðun um að afmarka mál sitt með þeim hætti sem raun ber vitni vil ég samt fá að taka fram að í tillögum hópsins eru fjölmargar góðar tillögur, sem við höfum kannski ekki sérstaklega rætt hér það sem af er þessari umræðu, sem snúa að kynheilbrigði, sem snúa einmitt að mikilvægi þess að gæta að kynfrelsi kvenna og sem snúa að réttindum fatlaðs fólks.

Ég byrja á því sem ég tel vera jákvætt í tillögunum sem snýr að kynheilbrigði fólks hér á landi, ekki hvað síst ungs fólks. Þar má nefna tillögur um að hormónagetnaðarvarnir verði án endurgjalds fyrir stúlkur yngri en 20 ára og að þær verði líka án endurgjalds fyrir konur sem standa höllum fæti í samfélaginu, sem og að smokkar verði án endurgjalds í framhaldsskólum landsins.

Áhugaverð rannsókn var gerð í Svíþjóð sem sýnir fram á að börn kvenna sem nota hormónagetnaðarvarnir, pilluna, eru einfaldlega hraustari. Þau eru þyngri þegar þau fæðast og það gengur betur bæði hjá þeim og mæðrum þeirra.

Hins vegar eru umdeildari atriði inni í þessum tillögum. Það umdeildasta er kannski það sem mest hefur verið rætt almennt varðandi tillögur nefndarinnar, ekki síst það að lengja þann tíma sem konu er heimilt að fara fram á þungunarrof eða fóstureyðingu fram að lokum 22. viku þungunar. Í ljósi þess að nefndin undirstrikar mikilvægi þess að afmá skuli alla mismunun gagnvart fötluðum einstaklingum, sem ég tek algjörlega undir, tel ég mjög brýnt að þingið (Forseti hringir.) hlusti á þær athugasemdir sem koma frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, þar á meðal ábendingar sem nefndinni bárust um að þessi breyting (Forseti hringir.) gæti og fremst beinst að fötluðu fólki.