146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í núgildandi lögum er þungunarrof í útgangspunkti óheimilt. Til að fá leyfi þarf kona að sækja um, fara í viðtöl og tveir læknar eða læknir og félagsfræðingur að skrifa greinargerð um málið áður en það er samþykkt.

Það er í rauninni stórskrýtin hugmynd að það sé annarra en konunnar sjálfrar að ákveða að hún skuli ganga með barn í níu mánuði og fæða með öllum þeim óþægindum og afleiðingum sem slíkt getur haft í för með sér fyrir viðkomandi. Í því felst sjálfræðissvipting sem á sér ekki hliðstæðu. Við myndum t.d. ekki þvinga fólk til að gefa úr sér líffæri þó að vitað væri að það bjargaði lífi annars.

93,8% allra tilfella þungunarrofs eiga sér t.d. stað fyrir tólftu viku meðgöngu. Þá er ekkert fóstur komið til skjalanna. Þá er um að ræða frumuklasa sem verður að fósturvísi en er ekki orðinn að fóstri. Meiri líkur en minni eru á að hann deyi án inngrips en getur orðið að fóstri á tólftu til fjórtándu viku.

Orðið fóstureyðing er beinlínis gildishlaðið, villandi og jafnvel rangt. Í því getur birst ónærgætni sem þegar verst lætur er til lítils annars en að valda sektarkennd hjá konum. Það er því sjálfsagt og nauðsynlegt að breyta heitinu úr fóstureyðingu í þungunarrof.

Á Facebook sá ég t.d. að Erna Magnúsdóttir fósturfræðingur bendir á að til séu konur sem séu það frjósamar að getnaðarvarnir virki illa. Þær mæta gjarnan fordómum af því að þær þurfa að rjúfa þungun ítrekað.

Frú forseti. Skýrslan sem er tilefni umræðunnar hér er fróðleg, vel unnin og ég tel það skyldu Alþingis að taka mið af henni við gerð lagabreytinga og aðgerða sem styðja enn frekar sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Að lokum þarf að efla kynfræðslu og kenna okkur körlum að sýna meiri ábyrgð.