146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna umræðunni um skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 25/1975 og vil gera að umtalsefni fóstureyðingar sem framkvæmdar hafa verið á fötluðum einstaklingum.

Í nýlegri afar vandaðri en átakanlegri skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli og aðbúnað fatlaðra þar kemur fram, með leyfi forseta, að: „nokkur fjöldi kvenna sem vistaðar voru á Kópavogshæli undirgekkst ófrjósemisaðgerð meðan á vistun stóð“.

Það kemur líka fram í þessari vönduðu skýrslu að í 18. gr. laganna frá 1938 sé að finna skilyrði að framkvæma ófrjósemisaðgerð. Þessi skilyrði séu fyrir hendi ef viðkomandi er fullra 25 ára en er „vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða annarra geðtruflana varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar, er heimilt að veita leyfi til aðgerðar samkvæmt umsókn sérstaklega skipaðs lögráðamanns.“

Nú vill svo til að í þessari skýrslu kemur fram að á árunum 1938–1975 voru alls um 59 umsóknir um ófrjósemisaðgerð ekki undirritaðar af þeim sem gekkst undir aðgerðina. Þar segir:

„Flestir sem gerðir voru ófrjóir án þess að undirrita umsókn voru undir tvítugu. Í flestum þessum tilfellum voru það foreldrar viðkomandi sem skrifuðu undir en einnig voru slíkar umsóknir undirritaðar af systkinum eða öðrum aðstandendum, lögráðamönnum, fulltrúum barnaverndarnefnda eða skipuðum tilsjónarmönnum. Talið var að í meiri hluta umsókna um aðgerð á fólki vegna andlegs vanþroska eða geðveiki mætti merkja að frumkvæðið hefði ekki komið frá viðkomandi sjálfum.“

Nú ber svo við að frá árinu 1975 höfum við ekki tölulegar upplýsingar um fjölda aðgerða sem gerðar (Forseti hringir.) hafa verið á fólki sem býr við fötlun eða andlegan vanþroska. Ég mun óska eftir svari frá hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að frelsi kvenna til að ráða yfir eigin líkama nái líka til (Forseti hringir.)frelsis fatlaðra kvenna til að taka ákvarðanir er lúta að því að ráða yfir eigin líkama. Og þá, (Forseti hringir.) fyrirgefðu, herra forseti, hvort rannsakað verði hvort ófrjósemisaðgerðir eftir árið 1975 hafi verið gerðar með óupplýstu samþykki.

(Forseti (SJS): Forseti verður að biðja alla að virða ræðutíma.)