146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta hafa verið góð umræða og margt gott og skilmerkilegt sem hefur komið fram. Það er rétt eins og ég drap á áðan að þetta er góð og vönduð skýrsla. Hún leggur til ýmsa hluti sem eru bráðnauðsynlegir eins og t.d. tillögur um kynfræðslu og annað slíkt. Mér finnst færð góð rök fyrir því að tímamörk þungunarrofs verði rýmkuð. Ég styð það, þ.e. þungunarrof verði gert heimilt til 22. viku eða þar til fóstur er talið hafa náð lífvænlegum þroska og að konur fái umfram allt sjálfar að taka ákvörðun nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því. Áfram verði þó ákvæði í lögum um það að þungunarrof fari fram eins fljótt og auðið er og helst fyrir 12. viku. Staðreyndin er auðvitað sú að 93,8% tilfella falla undir það.

Ég er ekki sammála hv. þm. Hildi Sverrisdóttur þegar hún segir að við eigum ekki alltaf að breyta um orð til þess að vinda ofan af fordómum. Ég get verið sammála um ýmislegt í því, t.d. svona fallegt orð eins og gamalmenni sem varð allt í einu skammarorð og menn fóru að nota eldri borgari og nú síðustu misserin heldri borgari. Það er allt annars eðlis. Fóstureyðing, það er gildishlaðið, það felur í sér fordóma og það er í 93,8% tilfella beinlínis rangt. Þannig að hitt orðið er fallegt. Það er held ég vel til fundið að styðja við þá orðanotkun.