146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Umræðan um brýna þörf á framtíðarsýn í öllum mögulegum málaflokkum heldur áfram. Nú er fókusinn á stofnanaþjónustu, búsetuvalkosti og endurhæfingu eldri borgara. Það að skortur sé á framtíðarstefnu í þeim málaflokki, eins og nær öllum öðrum málaflokkum í samfélaginu, er skandall í sjálfu sér og að miklu leyti orsök þess óvissuástands sem við upplifum í dag þar sem allt er einhvern veginn ómótað og í lausu lofti. Óskrifuð stefna ríkisstjórnar undanfarinna ára virðist hafa verið að fjölga dýrasta úrræðinu fyrir eldri borgara, sem eru hjúkrunarrými. Það hefur verið sýnt fram á mikilvægi þess fyrir velferð eldri borgara að þeir geti dvalið eins lengi og unnt er á eigin heimili og að í boði séu önnur búsetuúrræði fyrri þá sem ekki geta búið sjálfstætt og að síðasta úrræðið séu hjúkrunarrými, ekki einungis vegna kostnaðarins, en hjúkrunarrými eru dýrari en aðrar lausnir. Það sem er mikilvægara en kostnaðurinn er sú staðreynd að þeir eldri borgarar sem fara inn á þessar stofnanir búa ekki lengur við sjálfstæðan fjárhag og þurfa jafnvel að segja skilið við maka sína. Þetta hlýtur að eiga að vera síðast mögulega úrræðið sem fólk kýs að nýta sér. Þá er spurning hvort við hlúum þannig að fólki að það hafi einhverja raunverulega valkosti.

Hvernig væri t.d. að styðja við bakið á einstaklingum og fjölskyldum í landinu og gefa þeim raunverulegan kost á því að hlúa að öldruðum foreldrum, veikum vinum og nágrönnum eða sjá um börnin sín og vera til staðar á þeim tímum og stöðum í lífinu sem skiptir fólki mestu máli? Ég er ekki að segja að þetta sé lausn fyrir alla. Ég er að segja að valkosturinn ætti að vera til staðar.

Hvernig liti samfélagið út í dag ef raunverulega markmiðið væri velferð og sjálfbærni fram yfir aukna framleiðslu og neyslu í nafni linnulauss vaxtar hagkerfisins? Hvernig væri stefnan í dag ef við stjórnvölinn væri ríkisstjórn sem hefði almannahag að leiðarljósi, ríkisstjórn sem hefði þor og dug til þess að móta stefnu t.d. í auðlindamálum þannig að ríkasta þjóð í heimi gæti sýnt öldruðum þá virðingu sem þeir, eins og allir borgarar þessa lands eiga skilið, að geta lifað mannsæmandi lífi en búa ekki við lágmarksþjónustu, skert mannréttindi og takmarkað einkalíf?