146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að bregðast við og taka þátt í henni.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. málshefjanda að nú fer hópur aldraðra í samfélagi okkar sífellt stækkandi. Það verða mjög stórir hópar innan fárra ára sem tilheyra eldri borgurum hér á landi. Ég held að það sé einnig rétt sem kom fram í ræðu hv. málshefjanda að þessi hópur hefur mjög sterkar skoðanir á samfélaginu, kröfur og væntingar þessara aðila eru kannski ekki af sama meiði og var fyrir einhverjum árum síðan. Þetta eru einstaklingar sem eru mjög meðvitaðir um rétt sinn og möguleika og er það mjög vel.

Það er mjög mikilvægt að tryggja öldruðum búsetuúrræði sem þeim henta. Það hefur verið stefna stjórnvalda að aldraðir búi sem lengst heima. Undanfarin ár hefur heimaþjónusta verið byggð upp til að sinna þessum mikilvæga málaflokki en það þarf að gera betur, efla þjónustuna enn frekar og horfa til þeirrar velferðartækni sem er að ryðja sér til rúms í þessari grein í dag.

En síðan er það svo að aldraðir eru orðnir mjög veikir þegar þeir komast inn á hjúkrunarheimili. Umönnunarþörfin er oft mjög mikil. Því þarf að horfa til þess að hjúkrunarheimilin í landinu fái greitt eftir hjúkrunarrýmum en ekki of mörgum tilfellum dvalarrýmum eins og er í dag. Það er kostnaðarsamara og meiri umönnunarþörf sem liggur að baki hverju hjúkrunarrými en dvalarrými.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Þær 700 milljónir sem samþykktar voru í fjárlögum í desember, er búið að skipta þeim og ákvarða hvernig þeim fjármunum verði skipt niður á hjúkrunarheimili til uppbyggingar á rýmum?