146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[17:08]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttöku í umræðunni og hv. þingmönnum. Umræðan hefur verið mjög upplýsandi. Þetta er viðamikill málaflokkur sem við höfum hér reifað lauslega og sem stendur okkur öllum nærri. Það verða afdrif okkar flestra að verða fyrr eða síðar gamalt fólk. Stundum hef ég það samt á tilfinningunni að þeir sem fara með valdið reikni alls ekki með því að þeir séu að búa í haginn fyrir sjálfa sig, að það verði einn góðan veðurdag þeirra hlutskipti að verða gamall, lasburða og háður því að samfélagið rétti þeim höndina stuttan spöl, kannski bara litla fingur. Stundum finnst mér skammsýnin og jafnvel skeytingarleysið vera þvílíkt að jaðri við lítilsvirðingu gagnvart högum aldraðra.

En við getum tekið okkur á og það skulum við gera. Það er af nógu að taka, við þurfum að vinna meira með notendunum sjálfum, öldruðum, aðstandendum og frjálsum félagasamtökum, jafnvel sjálfboðaliðum. Við þurfum að efla faglega umönnunarþjónustu í hvaða mynd sem er. Við þurfum að nútímavæða og gera vistarverur aldraðra hagkvæmar og fjölga búsetuformum. Við þurfum að skerpa hugann og leita nýrra leið og vera skapandi á því sviði.

Mig langar rétt í blálokin að skerpa á örfáum atriðum gagnvart hæstv. ráðherra. Það lýtur að fjölbreytileika í búsetuformi og skýrslunni frá því í haust varðandi ellefu atriðin. Hvar er hún á vegi stödd og er unnið samkvæmt henni? Ætlar hæstv. ráðherra að verða sá sem brýtur í blað og breytir og fer nýjar slóðir í framtíðaruppbyggingu í öldrunarþjónustu? Einhver frómur maður lét þau orð falla að vandinn í öldrunarþjónustunni verði ekki til við stóraukinn fjölda aldraðra heldur við þá ímyndun að ekki sé hægt að bregðast við með öðrum hætti en við gerum í dag