146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir á kvennadeildum.

229. mál
[17:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að nálgast þessa umræðu og þessa fyrirspurn frá örlítið öðru sjónarhorni. Hún tengist að mínu mati fyrirspurn sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson bar upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag, um hækkun á gjöldum til kvensjúkdómalækna, og sérstakri umræðu um þungunarrof og kynfrelsi kvenna. Margar þeirra aðgerða sem fyrirspurnin fjallar um eru einmitt til komnar vegna þess að það eru konur sem ganga með og fæða börn. Mig langar þess vegna að beina því til hæstv. heilbrigðisráðherra að hann skoði stöðu kvenna almennt þegar kemur að aðgangi að heilbrigðiskerfinu, vegna þess að ég hef grun um að þar halli á konur og að konur séu oft í mjög slæmri stöðu eins og á svo mörgum öðrum sviðum í samfélaginu. Því þarf auðvitað að breyta.