146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

heilbrigðisáætlun.

230. mál
[17:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra enn og aftur fyrir mjög greinargóð svör. Það er rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði, hann sagði eitthvað í þá veru að við höfum öll talað um mikilvægi þess að efla enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu og mikilvægi þess að gefa í. Það er akkúrat það sem við hv. þingmenn Framsóknarflokksins gerðum, horfðum m.a. til orða embættis landlæknis sem talaði um mikilvægi þess að koma fram með stefnu eða áætlun í heilbrigðismálum til að geta stýrt fjármagninu og þessu verkferli innan heilbrigðisgreinanna þannig að við myndum nýta fjármagnið betur sem við hefðum og síðan gætum við farið að bæta inn í málaflokkinn eins og þyrfti.

Í hv. velferðarnefnd hefur jafnframt komið fram við vinnslu þessarar heilbrigðisáætlunar sem við erum með þar, að skýra þurfi betur verkferla innan heilbrigðiskerfisins, það þurfi meira samráð við fagfólk í heilbrigðisgreinum, það gæti verið leið eða ákveðið skref að sátt, að við gætum sett fingurna á verkefnið.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort að hans mati það gæti hjálpað framgangi þessarar þingsályktunartillögu okkar hv. þingmanna Framsóknarflokksins að við myndum vísa þeirri áætlun inn í þá vinnu sem er innan ráðuneytis hæstv. ráðherra, og þá gæti hæstv. ráðherra horft til þeirra efnisatriða er tillögutextinn fjallar um. Af því að mikið hefur verið rætt í nefndinni að mikilvægt sé að hraða þessari vinnu langar mig að spyrja hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé tilbúinn að upplýsa okkur í hv. Alþingi um framgang málsins áður en sumarhlé verður.