146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

lyfjaskráning.

231. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Komið hefur í ljós að töluverðar misskráningar hafa átt sér stað á lyfjum í lyfjagagnagrunni embættis landlæknis á undanförnum árum. Raunverulegt umfang misskráninga er í raun óljóst og ekki er heldur skýrt hvort um er að ræða kerfisvillur, kerfisbundna misskráningu eða ítrekaða handvömm, en allar þessar skýringar hafa komið fram í samskiptum við embættið og við velferðarráðuneytið. Ég hef, tengt þessu máli, rýnt í skýrslur og minnisblöð ásamt kerfislýsingu gagnagrunnsins sjálfs og hef orðið var við mjög skrýtnar ákvarðanir varðandi hönnun kerfisins tæknilega séð, eins og ég greindi raunar frá í grein í Kjarnanum sem ég skrifaði ásamt Ingunni Björnsdóttur, dósent í lyfjafræði við Óslóarháskóla, í október síðastliðnum. Það er rosalega mikilvægt að allar skráningar séu réttar í þessum gagnagrunni. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hversu mikilvægt það er, t.d. fyrir vísindalegar rannsóknir, fyrir eftirlit og áætlanagerð vegna lyfjakostnaðar og hjá ríkinu og einnig fyrir eftirlit með því að lyf lendi ekki í röngum höndum.

Þar sem staðið hefur á nægilega skýrum svörum frá stjórnkerfinu finn ég mig knúinn til þess að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvernig er háttað villuprófun og annarri gæðavöktun á lyfjagagnagrunni embættis landlæknis?

2. Hvaða skýringar eru á 10.000 taflna ofskráningu á ávísun á amfetamínsúlfat í lyfjagagnagrunni embættis landlæknis á tímabilinu september 2015 til mars 2016, sem voru síðan innkallaðar í mars 2016?

3. Hvaða skýringar eru á því að embætti landlæknis lokaði málinu haustið 2016 með 1.985 taflna ofskráningu enn óútskýrða?

4. Eru einhverjar frekari of- eða vanskráningar enn óútskýrðar hjá embætti landlæknis? Ef svo er, hvert er umfang þess og um hvaða lyf er að ræða?

Það ætti að vera nokkuð ljóst að hér er um rosalega mikilvægt mál að ræða. Þegar við horfum til gagnagrunna hjá ríkinu sem ríkið heldur utan um til þess að vita raunverulega hvað er í gangi er algjört lykilatriði að allar skráningar séu á hreinu. Því hlakka ég til að heyra hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi góðar skýringar á þessum tiltekna hópi villna sem komið hafa fram í þessum tiltekna gagnagrunni.