146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

lyfjaskráning.

231. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir mjög greinargóð svör. Þetta eru svolítið betri svör en við höfum áður fengið. Það er alveg ástæða til þess á sama tíma að fagna því að misskráningum fer fækkandi vegna þess að við notum rafræna skráningu frekar og handskráningar minna. Ég vona að ráðherra taki undir með mér um mikilvægi þess að við séum með þessi kerfi algjörlega á kristaltæru og allt sé rétt.

Nú hef ég sjálfur fengist mikið við forritun svipaðra kerfa, reyndar ekki á heilbrigðissviði en í öðru. Þegar töluleg frávik af þessu tagi koma upp er það nánast alltaf vegna þess að ekki hafa verið gerðar nægilegar prófanir. Fyrir vikið er það eitthvað sem við ættum að ræða meira í þessum sal og hæstv. ríkisstjórn líka, hvort ekki sé full ástæða til að leita að sameiginlegum gæðastöðlum varðandi hugbúnaðargerð fyrir ríkið og sér í lagi um gæðastjórnun rafrænna stjórnsýslukerfa.

Það að hægt sé að misskrá á þann hátt að afgreitt sé á öðru vörunúmeri er í senn gagnagrunnsvilla og líklega líka villa í hönnun kerfisins og forritunarviðmóti eða notendaviðmóti kerfisins. Það er spurning hvort það ætti að reyna að fela vörunúmerið þannig að frekar sé verið að tala um vöruheiti og þess háttar. Ég þakka aftur fyrir góð svör. Þessi misskráning er afskaplega vandræðaleg.