146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

bann við kjarnorkuvopnum.

53. mál
[18:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Afstaða Íslands til kjarnavopna er skýr, sú að stefna skuli að kjarnorkuvopnalausri veröld og að kjarnavopnum sé eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti. Við teljum líklegast til árangurs og raunhæfustu leiðina að styðjast við þá samninga og ferli sem fyrir liggja, til að mynda samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna, NPT. Í þessu tilliti hefur Ísland í gegnum tíðina stutt margvíslegar ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem lúta að þessu markmiði.

Við studdum hins vegar ekki þá ályktun sem liggur að baki þeim viðræðum sem hefjast í næsta mánuði og spurt er um. Ástæðan er m.a. sú að fyrir fram var ljóst að kjarnorkuvopnaveldin tækju ekki þátt í því ferli. Við teljum nauðsynlegt að þau sitji við borðið þegar samið er um fækkun kjarnavopna. Öðruvísi næst ekki árangur.

Ég get hins vegar vel tekið undir að of hægt gangi í þeim efnum og ýmsar blikur séu á lofti í öryggismálum. Við skulum þó ekki gleyma því að margvíslegur árangur hefur náðst. Síðastliðið haust fögnuðum við 30 ára afmæli leiðtogafundarins í Höfða sem var aflvaki meiri háttar fækkunar í kjarnavopnabúrum risaveldanna á þeim tíma. Þannig hefur kjarnavopnum undir stjórn Atlantshafsbandalagsins fækkað um allt að 90% frá lokum kalda stríðsins.

Þetta snýst því ekki um markmiðið, um heim án kjarnavopna, sem við erum öll sammála um, heldur um leiðina að því markmiði. Við höfum ekki trú á þeirri leið sem hér á í hlut. Þess vegna studdi Ísland ekki umrædda ályktun og mun því ekki taka beinan þátt í viðræðunum. Hins vegar mun fastanefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum í New York vitanlega fylgjast náið með framvindu mála.

Hvað fundinn núna í lok mars varðar eru væntingarnar því miður fremur litlar þar sem kjarnavopnaveldin taka ekki þátt í viðræðunum. Við höfum jafnframt verið þeirrar skoðunar, og þess vegna studdum við ekki umrædda ályktun, að ný ferli án atbeina þeirra sem mestu máli skipta kunni að veikja þá samninga sem fyrir eru, eins og NPT-samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna og samninginn um allsherjarbann við tilraunir kjarnavopna, CTBT. Til þess að ná settu marki og útrýma öllum kjarnavopnum þurfa allir hlutaðeigandi aðilar að koma að borðinu. Sú var ekki raunin í þessum viðræðum.

Síðan vil ég bara biðja viðkomandi hv. þingmann velvirðingar á að við náðum ekki að svara þessu fyrr. Það var ekki vegna þess að ekki væri vilji til þess. Ég er alveg tilbúinn til að ræða um kjarnavopnin. Þetta snýst ekkert um neina viðkvæmni hvað þá hluti varðar. En þegar maður er í því embætti sem ég er í er maður nokkuð á flandri í þjónustu lýðveldisins. Þess vegna var nú ekki hægt að koma þessu fyrir fyrr. Ég biðst velvirðingar á því. Því varð bara ekki við komið fyrr en núna.