146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

bann við kjarnorkuvopnum.

53. mál
[18:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég má til með að taka undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur og Kolbeini Óttarssyni Proppé um að það sé óforsvaranlegt að Ísland taki ekki þátt í þessum mikilvægu umræðum. Ég vil af því tilefni benda sérstaklega á álitsgefandi úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag þess efnis að notkun kjarnavopna geti ekki talist samrýmast alþjóðalögum, þar á meðal Genfarsáttmálanum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ástæðu til þess að draga í efa að svona umræður séu mikilvægar? Það taka 100 ríki þátt í umræðunum akkúrat núna. Þrátt fyrir að kjarnorkuveldin séu ekki með, væri ekki tilvalið fyrir Ísland að lýsa yfir afstöðu sinni með slíkum (Forseti hringir.) umræðum og þrýsta þar með á kjarnorkuveldin að taka þátt?