146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

rannsókn á fangaflugi bandarískra yfirvalda um Ísland.

124. mál
[18:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Umræða um meint ólögmætt fangaflug hefur stundum komið upp á síðustu 15 árum. Árið 2007 setti þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, á fót starfshóp til að kanna staðhæfingar þess efnis að flugvélar sem grunur leikur á að hafi verið notaðar í meintu fangaflugi hafi lent í Keflavík eða í Reykjavík. Niðurstaða skoðunar sýndi að flugvélar sem kenndar höfðu verið við meint fangaflug höfðu haft millilendingu hér á landi eða flogið um íslenska lofthelgi á umræddu tímabili, 2001–2007, en hvort um fangaflutninga hafi verið að ræða var ekki unnt að sannreyna. Hafa þarf þó í huga að flutningar á föngum eru ekki bannaðir og tíðkast um heim allan. Öðru máli gegnir um flutninga á föngum sem ekki njóta verndar eða meðhöndlunar samkvæmt alþjóðalögum, sem eru ólögmætir.

Íslenskum stjórnvöldum var ekki, hvorki þá né nú, kunnugt um að slíkir ólögmætir fangaflutningar hafi átt sér stað um Ísland. Og ef flug af þessu tagi hefðu komið til kasta íslenskra stjórnvalda hefðu þau vitanlega aldrei heimilað eða samþykkt slíka flutninga, enda skýrt brot á alþjóðalögum.

Ekki var sótt um sérstök yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar vélar. Hafi slíkar flutningar átt sér stað hafa þær verið í óþökk íslenskra stjórnvalda. Á sínum tíma þegar umræðan stóð sem hæst var bandarískum stjórnvöldum ítrekað gerð grein fyrir þessari afstöðu íslenskra stjórnvalda. Síðari tíma skýrslur, til að mynda skýrsla leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings sem að hluta til var gerð opinber árið 2014, gefa ekki frekari tilefni til að ætla að Ísland sé bendlað við meint ólögmætt fangaflug. Hér skal þó undirstrikað að utanríkisráðuneytið og íslensk stjórnvöld taka öllum ásökunum um meint ólögmæt fangaflug í gegnum Ísland mjög alvarlega og er umhugað um að koma í veg fyrir slíkt.

Í þeim tilgangi var m.a. lögum um loftferðir, nr. 60/1998, breytt í júlí 2015 til að styrkja lagastoð og heimildir til að óska upplýsinga um ríkisloftför sem og að setja reglur um komur og ferðir erlendra ríkisloftfara. Niðurstaða skýrslunnar frá árinu 2007 stendur að öðru leyti og afstaða íslenskra stjórnvalda er vitanlega hin sama nú. Við stöndum með mannréttindum og alþjóðalögum. Vakni rökstuddur grunur um brot þar á könnum við það til hlítar. Þessi afstaða hefur einnig verið ítrekuð í samskiptum við Evrópuráðið, m.a. í svari þáverandi utanríkisráðherra í október 2015 við fyrirspurn framkvæmdastjóra ráðsins til aðildaríkjanna vegna athugunar ráðsins á fangaflugum.

Virðulegi forseti. Fyrirspyrjandi spyr um aðgang utanríkisráðuneytisins að óritskoðaðri skýrslu Bandaríkjaþings og afgreiðslu fyrirspurnar þar að lútandi. Því er fyrst til að svara, líkt og fram kemur í nefndri fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins árið 2014, að birtur var 520 síðna útdráttur úr skýrslu Bandaríkjaþings sem ítarlega var farið yfir. Af þeirri skoðun varð ekki ráðið að fjallað væri um Ísland eða millilendingar hér á landi með fanga eða grunaða hryðjuverkamenn. Óskað var eftir aðgangi að sjálfri skýrslunni í heild en því var hafnað þann 23. desember 2014 af hálfu bandarískra yfirvalda á grundvelli trúnaðar- og öryggishagsmuna. Sú afgreiðsla bandarískra stjórnvalda beindist þó ekki að Íslandi einu heldur var rýmri aðgangi að skýrslunni almennt hafnað á grundvelli trúnaðar- og öryggishagsmuna. Því hafa íslensk stjórnvöld ekki frekari upplýsingar um skýrslu Bandaríkjaþings en sem nemur útdrættinum sem þó er mjög ítarlegur.

Að endingu skal hér ítrekað að utanríkisráðuneytið og íslensk stjórnvöld taka öllum ásökunum um meint ólögmætt fangaflug í gegnum Ísland mjög alvarlega og er okkur umhugað um að hindra og koma í veg fyrir slíkt. Enginn ætti að fara í grafgötur með þá afstöðu íslenskra stjórnvalda.