146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

gerð samnings um vegabréfsáritanafrelsi við Kósóvó.

168. mál
[18:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Schengen-ríkin semja í sameiningu við þriðju ríki um vegabréfsáritanafrelsi inn á Schengen-svæðið og getur slíkt ferli tekið þó nokkuð langan tíma, allt eftir því hvernig umsóknarríki uppfyllir þau skilyrði sem til staðar eru. Hvað Kósóvó varðar hafa ESB og Kósóvó allt frá árinu 2012 unnið markvisst að því að ná samkomulagi um afnám áritanaskyldu fyrir ríkisborgara Kósóvó.

Ferlið í kringum samningaviðræður við þriðju ríki er staðlað. Áður en hægt er að ganga að samningsborðinu þurfa viðkomandi lönd að uppfylla ákveðin skilyrði sem koma fram í aðgerðaáætlun ESB um áritanafrelsi. Með leyfi forseta: Road Map on Visa Liberalisation. Skilyrðin varða skýr og gagnsæ viðmið sem tengjast meðal annars öryggi og allsherjarreglu í landinu, virðingu fyrir mannréttindum og persónufrelsi, málefnum innflytjenda og milliríkjasamskiptum viðkomandi umsóknarlands.

Einnig er í áætluninni mælt fyrir um ákveðið eftirlit og mat á aðstæðum sem fara þarf fram áður en til kemur að ákvörðun af þessu tagi er tekin af hálfu ESB og Schengen-ríkjanna. Í þessu tilliti er lögð sérstök áhersla á öryggismál og baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi og hryðjuverkum. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að hér sé haldið vel á spöðum af hálfu Evrópusambandsins.

Líkt og áður sagði hófust viðræður ESB við Kósóvó formlega í ársbyrjun 2012 og í júní sama ár afhenti framkvæmdarstjórn ESB stjórnvöldum í Kósóvó aðgerðaáætlun um áritanafrelsi. Þar komu fram þau skilyrði sem Kósóvó þarf að uppfylla, m.a. með lagasetningu og öðrum aðgerðum.

Landinu hefur orðið vel ágengt við að uppfylla ákvæði aðgerðaáætlunar og hefur nú náð 93 af þeim 95 skilyrðum sem komu fram í áætluninni. Skilyrðin tvö sem ekki hafa verið uppfyllt eru þó afar mikilvæg og varða annars vegar kröfu um að Kósóvó fullgildi samning um landfræðilega afmörkun milli Svartfjallalands og Kósóvós og hins vegar er gerð krafa um eflingu í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, spillingu og hryðjuverkastarfsemi.

ESB hefur einnig lýst yfir áhyggjum af auknum straumi hælisleitenda frá Kósóvó og aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við þessu. Þann 10. maí á síðasta ári gaf framkvæmdarstjóri ESB út tillögu að breytingum á reglugerð nr. 539/2001 þar sem til þess var mælst að Kósóvó yrði fært yfir á lista yfir þau lönd sem ekki þurfa áritun til að ferðast til Schengen-svæðisins. Þessi tillaga var þó háð því að Kósóvó lyki við aðgerðir í tengslum við þau tvö skilyrði sem enn hafa ekki verið uppfyllt.

Því er við að bæta að stjórnvöld í Kósóvó vinna í afar nánu samstarfi við framkvæmdarstjórn ESB við að uppfylla kröfur aðgerðaáætlunarinnar.

Það er því ljóst að þegar Kósóvó hefur uppfyllt öll skilyrði aðgerðaáætlunar verður kosið um breytingarnar á þeirri reglugerð sem liggur til grundvallar bæði á Evrópuþinginu og í ráðinu þar sem aukinn meiri hluta þarf fyrir samþykki breytingartillögunnar. Hvað Ísland og önnur Schengen-ríki sem standa utan ESB varðar er það svo að þegar ESB hefur gert samninga við einstök ríki um afnám vegabréfsáritana höfum við fylgt í kjölfarið og fellt niður áritunarskyldu samhliða öðrum Schengen-ríkjum. Er það staðfest með samningi við viðkomandi ríki.

Ég vil að endingu ítreka að ferlið hjá ESB og Schengen-ríkjunum er staðlað. Gerðar eru skýrar og afdráttarlausar kröfur og er það ekki að ófyrirsynju. Hér er um lykilmál að ræða og það gefur augaleið að brýn nauðsyn er á að skýr og gagnsæ skilyrði ráði för í svo þýðingarmiklum málum.

Ein af þeim skuldbindingum sem fylgir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu er að framfylgja því regluverki sem gildir um skilyrði þess að mega koma inn á Schengen-svæðið. Þannig eru gildandi listar yfir ríki sem þurfa áritanir eður ei þeir sömu á öllu svæðinu og byggja á samþykktri reglugerð ESB á vettvangi Schengen-samstarfsins sem Ísland hefur samþykkt með formlegum hætti fyrir sitt leyti.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns.