146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

almenningssamgöngur.

142. mál
[18:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér mál sem hefur valdið dálitlum deilum og misjafnar skoðanir hafa verið uppi um.

Hér er spurt hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir úrbótum á lagaumhverfi almenningssamgangna. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er núna til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Þar er gerður skýr greinarmunur á reglubundnum farþegaflutningum, þ.e. almenningssamgöngum, og öðrum farþegaflutningum í atvinnuskyni. Þá er í frumvarpinu kveðið á um hvaða skilyrði heimilt er að veita einkaleyfi til að skipuleggja almenningssamgöngur um auknar eftirlitsheimildir með farþegaflutningagreininni og um viðurlög við því að aka í reglubundnum farþegaflutningum á þeim svæðum eða leiðum þar sem einkaleyfi hafa verið veitt. Þessar auknu eftirlitsheimildir og viðurlög fela í sér talsverðar úrbætur á lagaumhverfi almenningssamgangna. Það eru svo sem engar frekari aðgerðir fyrirhugaðar af okkar hálfu. Hér er um að ræða beina innleiðingu á Evrópureglum. Þetta mál var unnið í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við teljum að þetta muni tryggja þessi sérleyfi í almenningssamgöngum.

Það er spurt líka hvort ráðherra hafi í hyggju að veita landshlutasamtökum einkaleyfi almenningssamgangna. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, hefur Vegagerðin heimild til að veita sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum á tilteknu svæði og á tilteknum leiðum. Landshlutasamtökum sveitarfélaga hefur verið veitt einkaleyfi í samræmi við 7. gr. gildandi laga að undanskildum Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í 7. gr. frumvarps til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, sem er núna til umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd, eru sömu heimildir fyrir og eru í þessum efnum.

Einnig er spurt hvort gerður verði skýrari greinarmunur á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Því er til að svara sem hefur komið fram í máli mínu, virðulegur forseti, að talið er af ráðuneytinu, eftir því sem ég best veit, vera um það sátt með Samtökum íslenskra sveitarfélaga, sú útlistun sem er í umræddu lagafrumvarpi. Ég vænti þess að það eigi að geta hlotið afgreiðslu núna á vordögum og muni tryggja þessa hagsmuni sveitarfélaganna sem eru mjög mikilvægir. Því ætti að linna ákveðinni óvissu sem að okkar mati hefur verið um þessi mál.