146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

almenningssamgöngur.

142. mál
[18:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég umræðuna, ég er að verða þakklátasti maður þessa Alþingis, alltaf að koma hér upp í pontu að þakka fyrir, og svör hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á að í hv. umhverfisnefnd væri lagafrumvarp um almenningssamgöngur. Það er ekki alls kostar rétt. Eins og hæstv. ráðherra benti á er það lagafrumvarp um fólksflutninga annars vegar og farmflutninga hins vegar. Ég held að það sé akkúrat það sem við eigum að gera núna á næstunni, að setja sérstök lög um almenningssamgöngur. Margir þeirra umsagnaraðila sem skiluðu umsögnum við það frumvarp sem við erum að fjalla um í nefndinni tiltóku það sérstaklega. Almenningssamgöngur eru það sérhæft fyrirbæri sem um gilda það sérstakar aðstæður að ég hvet hæstv. ráðherra til að setja sérstök (Forseti hringir.) lög þar um. Ef hæstv. ráðherra sér sér það ekki fært vegna einhverra ástæðna, anna eða einhvers annars, þá tel ég að hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) eigi að stíga (Forseti hringir.) skref í þeim efnum.