146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar.

158. mál
[19:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það var gott að heyra að hæstv. ráðherra tók vel í að gera átak í þessu máli og gott að greining hefur farið fram á hvar þörfin er að setja upp salernisaðstöðu í kringum landið við þjóðvegi landsins. Þessi þörf er auðvitað orðin mjög brýn. Fram kom að það séu um 40 staðir sem menn telja að það langt sé á milli aðstöðu, eins og hjá vegasjoppum, að koma þurfi upp aðstöðu. Innlendir aðilar smíða færanlega salernisaðstöðu svo að ekki strandar á því að skoða möguleika á að kaupa af þessum innlendu aðilum slíkt húsnæði sem er færanlegt. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða ferðamönnum upp á að hafa enga aðstöðu eins og nefnt hefur verið, að menn þurfi að stoppa og ganga örna sinna hvar sem er við þjóðveginn. Það er auðvitað ekki boðlegt. Það er ekki heldur boðlegt gagnvart sjoppum (Forseti hringir.) hringinn í kringum landið að þar er komið með heilu rútufarmana af ferðafólki bara til að fara á salernið. Við getum ekki ætlast til þess að sjoppueigendur sinni því hlutverki sem ríkið á að gera.