146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

vegarlagning um Teigsskóg.

182. mál
[19:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er vissulega í mörg horn að líta. En þetta svæði hefur þá sérstöðu að um er að ræða einu leiðina að íbúabyggð, sem liggur um þessa holóttu vegi sem sáust í fréttum sjónvarpsins um daginn. Það er ekki orðið boðlegt að íbúar þarna þurfi endalaust að bíða eftir því að fá þessar lágmarkssamgöngubætur inn á sitt svæði. Hæstv. ráðherra nefndi mikla atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Sem betur fer er byggð að eflast á sunnanverðum Vestfjörðum. Þess vegna verður framlag ríkisins, til þess að boðlegir vegir liggi inn á þetta svæði en ekki niðurgrafnir malarvegir, að vera í takt við þá atvinnuuppbyggingu og þær miklu gjaldeyristekjur sem svæðið skilar. Það er ekki hægt að láta þetta þvælast áfram í kerfinu gagnvart landeigendum. Það er ekki boðlegt. Það verður að áfangaskipta þessu og leggja fram hærri fjárhæð en 200 milljónir (Forseti hringir.) sem dugar einhverja 2 km. Við værum ansi mörg ár að þessu ef við ættum að mjatla þessu þannig inn. Það þarf miklu meira en það inn á þetta svæði (Forseti hringir.) sem hefur setið eftir og hefur mikla sérstöðu.