146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

vegarlagning um Teigsskóg.

182. mál
[19:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það hafa lengi staðið deilur um þetta vegstæði og það er dálítið sérstakt að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skuli koma hér og í raun skrifa það á minn reikning að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum þurfi endalaust að bíða. Henni er (Gripið fram í.) vonandi vel kunnugt um það að m.a. í hennar flokki hefur verið mjög mikil andstaða hjá ákveðnum þingmönnum við það vegstæði sem Vegagerðin hefur lagt til að valið verði. Mikill ágreiningur er búinn að vera um málið, sem hefur tafið það eins og raun ber vitni. En það sér vonandi fyrir endann á því (LRM: Vonir eru bundnar við þig, Jón.) og þá munum við fara af stað og höfum þegar tekið frá fjármagn til þess. Ég tek algjörlega undir það með hv. þm. Lilju Rafneyju að það gengur ekki að mjatla því inn á mörgum árum. Ég er algjörlega sammála henni í því. Það er bæði óhagkvæmt og ekki boðlegt. Við þurfum því að leita lausna á því og fara með myndarlegum hætti í þetta verk eins og svo mörg önnur. En það er vandasamt að forgangsraða og okkur hendir það, sem er ósköp eðlilegt, að horfa hvert með sínum nærsýnisgleraugum á öll þessi verkefni eftir því hvaðan við komum af landinu. Ég hef mikinn skilning á því þegar íbúar austur á landi eða á Reykjanesi segja: Röðin er komin að okkur. Þetta er klárlega eitt af algjörum forgangsmálum í vegagerðarmálum.

Ég get svarað hv. þm. Elsu Láru með því að við munum gera það. En hún spyr: Af hverju segist þið vera að forgangsraða í þessi mál þegar ekki kemur meira fé en raun ber vitni? Það var Alþingi sem ákvað það áður en þessi ríkisstjórn kom til starfa hvað lagt yrði til vegamála. Það á að verja 5,8 milljörðum, 5.800 milljónum meira til vegamála (Forseti hringir.) á þessu ári en á síðasta ári. Það eru miklir peningar. Það eru 23–24 milljarðar á einu kjörtímabili, ef saman er talið. Þannig að það mun mikið vera hægt að gera við það fé. En betur má ef duga skal. (Forseti hringir.) Það er bara einfaldlega þannig. Nú fær þingið það verkefni að forgangsraða bæði við (Forseti hringir.) fjárlagagerðina í haust og eins við ramma fjárlaga núna. (Forseti hringir.) Við skulum hjálpast að við að ýta þessu máli áfram.