146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Það er ástæða til að geta þess undir þessum lið að við þingmenn Norðvesturkjördæmis, allir saman, funduðum í gærkvöldi með bæjaryfirvöldum á Akranesi og fulltrúa launþega á staðnum til að ræða þá alvarlegu stöðu sem þar er upp komin. Það er ekki ofsögum sagt af þeim fréttum af áformum HB Granda að hætta bolfisksvinnslu á Akranesi og segja upp allt að 93 manns að það sé mikið reiðarslag, mikið áfall fyrir það starfsfólk sem á í hlut og íbúa alla. En það var líka uppörvandi að heyra á fundinum að einhugur er meðal Skagamanna um að halda áfram viðræðum af góðum hug og þrótti við HB Granda um uppbyggingu á framtíðaraðstöðu fyrirtækisins á Akranesi. Af þeim sökum eru komin fram haldbær rök fyrir fyrirtækið að hinkra með ákvörðun sína um sinn þar til farið hefur verið betur yfir alla möguleikana í stöðunni, bæði með starfsfólki og bæjaryfirvöldum.

Frú forseti. Í stærra samhengi hluta er því miður hætt við því að þetta sé ekki einangrað tilvik sem um ræðir. Mikil hækkun launa, veruleg styrking krónunnar og háir vextir setja fjölmargar fiskvinnslur í verulegan vanda víða um land og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að gjöld á atvinnuveginn umfram aðrar útflutningsgreinar eru íþyngjandi, gjöld sem leggjast sérstaklega þungt á lítil og meðalstór fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni. Ef það er raunverulegur vilji til þess að treysta atvinnuskilyrði, auka starfsöryggi starfsfólks og auka byggðafestu hlýtur lækkun þeirra að vera einn valkostur sem er í stöðunni.