146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur tækifærið hér. Ég verð að fá að byrja á því að segja að mér þykir reyndar nokkuð langt gengið í viðleitninni að spyrða okkur í Viðreisn við Sjálfstæðisflokkinn þegar skilaboðin til mín varðandi orðastað okkar hér eru svohljóðandi frá starfsmanni Pírata, með leyfi forseta:

„Birgitta Jónsdóttir vill eiga orðastað við Hönnu Birnu Friðriksson [Hlátur í þingsal.] um stöðu Viðreisnar og BF í skoðanakönnunum og hennar viðbrögð við þeim.“

Það er greinilega öllum brögðum beitt.

En að alvöru málsins. Þetta er rétt eftir mér haft. Misskilningurinn er hins vegar sá að ég var alls ekkert að kvarta. Þetta var bara viðurkenning. Þetta er eins og að vera tekin úr umferð í handboltanum í gamla daga.

Ég nefndi þetta í „forbifarten“ í sjónvarpsþætti áður en ég tók til við eftirfarandi upptalningu á verkum sem Viðreisn hefur komið upp á borðið í þessu stjórnarsamstarfi. Mér dettur ekki í hug að trúa því að stjórnarandstaðan trúi því í fullri alvöru að mörg þeirra verka sem komin eru upp á borð ríkisstjórnar væru þau sömu ef ekki væri vegna Viðreisnar.

Á fyrstu tæpu 80 dögum þessarar ríkisstjórnar hafa fulltrúar Viðreisnar, og ég ætla að leyfa mér að telja upp, sett af stað nefnd um endurskoðun peningastefnu, sem mun skila af sér á árinu; kynnt frumvarp sem lagt verður fram á haustþingi (Gripið fram í.) um að sömu samkeppnislög muni gilda um Mjólkursamsöluna og önnur fyrirtæki; ekki látið undan útgerðinni í sjómannaverkfallinu, því náðust samningar í fyrsta skipti í sjö ár; sett af stað sáttanefnd í sjávarútvegi með það fyrir augum að ná sanngjörnu afgjaldi af auðlindinni; breytt nefndarskipan um að endurskoða búvörusamninginn með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi; kynnt frumvarp um lögbundna jafnlaunavottun sem hefur náð mikilli athygli í heimspressunni. (Gripið fram í: Hvar er það?)(Gripið fram í: Hvar er það?) (Gripið fram í: Við höfum ekki séð það.) Það er á leiðinni.

Aftur: Fjögurra ára kjörtímabil, við erum búin með 80 daga og 1. apríl er ekki kominn. Síðan höfum við sett af stað og erum að stýra samstarfi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að aðgerðaáætlun sem ætlað er að slá á framboðsvandann á húsnæðismarkaði. Öll þessi mál eru unnin með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Öll voru þau uppi á borðinu í kosningabaráttunni … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) (BirgJ: … sérstaklega til að draga vagn Sjálfstæðisflokksins?) (Forseti hringir.) Annað en …? Þið hafið endalaust notið þess, svo ég svari því nú til, (Forseti hringir.) og það er ekki hægt annað en að fara bara í umræðu ykkar í fjölmiðlum almennt, (Forseti hringir.) ætíð spyrt okkur við Sjálfstæðisflokkinn sem litla bróður, sem litla valdalausa aðilann, að við höfum gengist honum á hönd o.s.frv. Þú hlýtur að þekkja orðræðuna vegna þess að þú hlýtur að vera ein af skipuleggjendunum. (Forseti hringir.) En þannig er þetta. Og í stuttu máli er þetta Viðreisn og ég er Hanna Katrín.