146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að slá á aðeins léttari strengi hérna. Störf þingsins eru að mínu mati áhugaverðasti dagskrárliðurinn á þingfundum. Á slaginu kl. 8 keppast þingmenn við að komast á mælendaskrá þótt einungis sé gert ráð fyrir að hluti þeirra komist að. Ef þingmenn skrá sig þegar klukkan er gengin tvær mínútur í níu er það stundum of seint. Hér fá þingmenn tvær mínútur til að tjá sig um hvaðeina sem þeim liggur á hjarta.

Í dag vil ég nota mínar tvær mínútur til að vekja athygli á því að Sveinn Áki Lúðvíksson var að láta af starfi sem formaður Íþróttasambands fatlaðra, starfi sem hann hefur sinnt síðan 1996. Sveinn Áki hefur þjónað fötluðu fólki og málefnum þess af metnaði, virðingu, umburðarlyndi og samkennd, starfi sem hann hefur sinnt síðan 1996. Ég þekki Svein Áka ekki og hef aldrei kynnst honum, en frétt um starfslok hans hreyfði við mér í gær. Það var kannski eina fréttin sem hreyfði við hjarta mínu.

Hann sagði í viðtali á RÚV að fólk áttaði sig ekki á því hversu stór afrek hefðu verið unnin á undanförnum áratugum í tengslum við íþróttir fatlaðra. Hann sagði jafnframt að það hefði þroskað hann mikið að vinna með fötluðum. Þau skilaboð skipta verulegu máli.

Innan Bjartrar framtíðar er það sýn okkar að á Íslandi ríki ævarandi og staðföst virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins þar sem sumir eru svona og aðrir hinsegin og að allir einstaklingar, hvort sem þeir glíma við líkamlegar, félagslegar eða andlegar hindranir, eigi möguleika á sjálfstæðu lífi, með reisn og fái til þess aðstoð ef þarf.

Þótt það sé ekki endilega mitt hlutverk að þakka Sveini Áka opinberlega fyrir störf hans á mikilvægum vettvangi tel ég það samt hlutverk okkar allra að staldra við, hrósa og þakka þeim sem það eiga skilið í okkar samfélagi. Það á svo sannarlega við í tilviki Sveins Áka og annarra sem starfa eins og hann.