146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Viðreisn var ekki eini flokkurinn sem talaði um peningamál fyrir kosningar. Hann var hins vegar fyrsti flokkurinn til þess að hlaupa frá málflutningi sínum, eða var hann ekki stofnaður vegna ágreinings við Sjálfstæðisflokkinn um peningamál?

Hv. þingmaður kastar hér fram nokkrum mikilvægum spurningum sem tosa okkur inn í blákaldan veruleika örhagkerfisins. Fáum dylst að sterk staða krónunnar kemur þeim atvinnugreinum sem þar eru nefndar illa, en þversögnin er að þeirri stærstu, ferðaþjónustunni, svíður nú hið sterka gengi en hún á auðvitað sinn þátt í þessu háa gengi.

Frú forseti. Hvort væri gáfulegra fyrir risa, sem er svo hávaxinn að hann gnæfir við skýin og þráir að skoða mannlífið, að beygja sig rólega niður eða höggva af sér fæturna við hné? Best hefði líklega verið að honum hefðu verið gefin hormón í æsku sem dregið hefðu úr vextinum. Hér höfum við varla mátt minnast á skattafslátt á ferðaþjónustuna án þess að allt hafi orðið vitlaust. Það hefði átt að hækka gjöld á ferðamenn þegar greinin var nógu burðug til að bera hana en bjó við miklu lægra gengi. Ekkert hefur verið gert, hún vex öðrum greinum yfir höfuð og er jafnvel farin að ryðja þeim úr vegi. Og nú er flóknara að leggja álögur á greinina sem býr við þetta háa gengi.

Önnur hlið snýr svo að almenningi sem í kjölfar hrunsins og falls krónunnar þurfti að taka á sig stórkostlegar kjaraskerðingar til að bjarga útflutningsgreinunum og sér nú loks fram á miklu betri tíð með háu gengi. Það felst ekki mikið réttlæti í því að almenningur taki aftur á sig kjaraskerðingar til að útflutningsgreinarnar haldi áfram að græða.

En þetta er erfið spurning: Eiga stjórnmálamenn virkilega að stýra því frá mánuði til mánaðar hvert gengi krónunnar er og í hvers vasa hún lendir? Það er fyrirkomulag sem við jafnaðarmenn getum ekki sætt okkur við. Við þurfum að finna aðrar leiðir til að losna við sveiflurnar, annars missum við vaxtarbroddinn úr hagkerfinu, þekkingar- og nýsköpunargreinarnar, úr landi.