146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ráðherra flutti hér ágætisinngang en ég er bókstaflega engu nær varðandi það hvort eitthvað er í vændum á næstunni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það dugar lítt að vísa í málflutnings Viðreisnar fyrir kosningar. Nú er formaður Viðreisnar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hann er í ríkisstjórn. Það er eðlilegt að gerðar séu til hans kröfur um að svara fyrir um það hvað stjórnvöld ætlist fyrir á næstu vikum og mánuðum í þessum efnum. Það er ekki bara lífsspursmál fyrir útflutningsgreinar að hér sé jafnvægi í hagkerfinu og raunhæf skráning á gengi krónunnar. Það hefur alltaf sýnt sig vera eitt afdrifaríkasta atriði fyrir almenning í landinu því að við vitum af langri og biturri reynslu hverjir bera alltaf kostnaðinn af því ef ójafnvægi hleðst upp og leiðréttist svo með harkalegum hætti á kostnað almennra lífskjara í landinu.

Ég verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af ástandinu og ekki síður eftir svör ráðherra hér áðan eða málflutning fleiri þingmanna. Ég tel deilur um evru og krónu eða myntráð eða eitthvað annað slíkt einhvern tímann inni í framtíðinni ekkert erindi eiga í umræður dagsins í dag. (Gripið fram í: Nei, tölum bara um …) Við erum hér og nú stödd þar sem við erum með þau tæki til hagstjórnar sem við höfum í höndunum. Það er ekkert svar að vísa í að það gæti verið einhvern veginn betra einhvern tímann og einhvern tímann inni í rósrauðri framtíð. Hvað verður búið að gerast þangað til ef menn ætla að fljóta sofandi að feigðarósi?

Undangengin misseri hefur verðstöðugleiki í landinu verið borinn uppi af tvennu; annars vegar því að krónan hefur verið í samfelldum styrkingarfasa og hins vegar því að við höfum flutt inn verðhjöðnun og verðlækkun í formi lágs olíuverðs og lágs hrávöruverðs og slakans í hagkerfunum í viðskiptalöndunum. Hvað ætla menn að gera ef þetta snýst nú við? Ef olíuverð fer að hækka? Ef hrávöruverð fer að hækka og við flytjum inn verðbólgu í staðinn fyrir að það sé öfugt, ef gengið færi þá að gefa eftir? Þá værum við með (Forseti hringir.) þá háu vexti sem raun ber vitni. Ekki yrði nú sársaukalítið ef (Forseti hringir.) það ætti þá enn að hækka þá. Ég held menn verði að taka þetta ástand mjög alvarlega. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að gera það.