146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til málshefjanda. Ég held að þetta mál sem hefur verið til umræðu í dag sé alvarlegasta mál, alvarlegasti efnahagsvandi Íslands nú. Það leysum við ekki með upphrópunum heldur verðum við að beita yfirvegun.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr mig um útfærslu myntráðs. Ein forsenda fyrir slíku er sú að eiga mikinn gjaldeyrisforða, eins og við eigum reyndar nú. Forsenda fyrir því að Seðlabankinn geti haldið áfram inngripum er sú að myntforðinn minnki og hann mun minnka svolítið núna þegar hluti snjóhengjunnar verður greiddur út, en þetta eru mál sem þarf auðvitað að hugsa um.

Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir talaði um að sveiflur kæmu niður á almenningi og það er alveg hárrétt. Það er óviðunandi fyrir allan almenning að þurfa að búa við þessar sveiflur í gjaldmiðli. Stöðugleikasjóður er í undirbúningi. Ég á hins vegar ekki von á því að hann muni hefja störf fyrr en kannski eftir tvö til þrjú ár, en verið er að undirbúa það.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr um framkvæmdir við Isavia. Það er alveg rétt hjá honum að eitt af því sem við þurfum að huga að eru framkvæmdir ríkisfyrirtækja. Isavia var með hugmyndir um framkvæmdir upp á 40 milljarða á ári, þeir voru komnar niður í 25 milljarða, en ég talaði við formann stjórnar fyrir tæpri viku og nú eru þetta 10–15 milljarðar. Ég legg mikla áherslu á að dempa þetta.

Það er rétt sem hv. málshefjandi sagði, þetta er mikilvægt. Í raun og veru var erindi mitt aðeins inngangur að því sem koma skal, en við verðum öll að taka höndum saman. Við erum öll á sama báti.