146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við drögum fram í afgreiðslu okkar á fjármálastefnunni, og það kom vel fram í framsögu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann flutti þingmálið hér í salnum, að ríkissjóður er enn í mjög viðkvæmri stöðu. Ríkissjóður hefur ekki burði til að auka verulega útgjöld sín því að hann er enn í skuldastöðu sem við þurfum í fyrsta lagi að greiða hraðar niður. Í öðru lagi, þingmaðurinn biður mig að vera skýrari í því hvað ég eigi við með orðum mínum um að endurskoða fyrirkomulag ríkisfyrirtækja. Þá skal ég nefna það sem ég hef fyrst og fremst í huga, það er uppbygging á Keflavíkurflugvelli og rekstur flugstöðvarinnar þar, án þess þó að ég sé að tala um sölu flugvallarins sjálfs í því sambandi.